Fótbolti

Potaði í rassinn á leik­manni í miðjum leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lucas Ocampos fagnar marki með Sevilla en hann var ekki eins ánægður í leiknum á móti Rayo Vallecano í gær.
Lucas Ocampos fagnar marki með Sevilla en hann var ekki eins ánægður í leiknum á móti Rayo Vallecano í gær. EPA-EFE/Miguel Angel Molina

Lucas Ocampos, leikmaður Sevilla, var öskuillur í leik Sevilla og Rayo Vallecano í spænsku deildinni í gær. Ástæðan var að áhorfandi potaði í rassinn á honum í miðjum leik.

Atvikið furðulega varð eftir hálftíma leik. Ocampos var þá að undirbúa sig að taka innkast þegar áhorfandi stakk puttanum í rassinn á Ocampos.

Ocampos snéri sér strax við og kallaði síðan á dómara leiksins. Á endanum róuðust menn og leikurinn hélt áfram.

Ocampos útskýrði hvað hafði gerst í viðtali eftir leikinn.

„Ég bind vonir við að deildin taki þessu jafnalvarlega og kynþáttafordómum. Ég vil ekki segja að allir stuðningsmenn Vallecano hagi sér svona en það er alltaf þessi eini vitleysingur,“ sagði Ocampos við DAZN.

Ocampos sagðist ekki hafa gert neitt við áhorfandann þar sem hann óttaðist harða refsingu við slíku.

„Ég vona líka að svona gerist ekki annars staðar. Við vitum öll hvað myndi gerast ef að þetta væri kvennaleikur. Ég vona að dætur mínar lendi ekki í svona í framtíðinni,“ sagði Ocampos.

Sevilla sendi frá sér tilkynningu á miðlum sínum þar sem er kallað eftir því að atvikið verði rannsakað og deildin hefur verið látin vita af atvikinu.

Sevilla vann leikinn 2-1.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×