Leikur Englands og Íslands verður spilaður á Wembley-leikvanginum 7. júní. Þetta verður aðeins í annað skiptið sem íslensku strákarnir spila á þessum heimsþekkta leikvangi.
Leikurinn er hluti af undirbúningi enska liðsins fyrir lokakeppni EM í Þýskalandi. Enska liðið hefur tryggt sér sæti á mótinu og Ísland gæti verið þar líka gangi allt upp í mars.
Íslenska liðið mætir Ísrael í fyrri umspilsleik um sæti í lokakeppni EM 2024 þann 21. mars. Sigurvegarinn í þeim leik mætir annað hvort Bosníu-Hersegóvínu eða Úkraínu 26. mars í úrslitaleik um sæti í lokakeppni EM 2024 í sumar.
Ísland og England hafa mæst fimm sinnum áður í A-landsliðum karla og þar af einu sinni áður á Wembley. Ísland hefur unnið einn leik, en það var þegar liðin mættust í lokakeppni EM 2016 í Frakklandi.
Jafntefli varð niðurstaðan í fyrstu viðureign liðanna, á Laugardalsvelli í júní 1982. Síðustu tveir leikir liðanna voru í Þjóðadeildinni árið 2020, en þar unnu Englendingar báða leikina.
A landslið karla mætir Englandi í vináttuleik þann 7. júní og fer leikurinn fram á Wembley-leikvanginum í Lundúnum.#fyririslandhttps://t.co/LfYvNTu2N6
— Knattspyrnusambandið (@footballiceland) February 5, 2024