Innlent

Fram­bjóðandi óskar eftir samskiptaskapara

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Sigríður Hrund Pétursdóttir, forsetaframbjóðandi.
Sigríður Hrund Pétursdóttir, forsetaframbjóðandi.

Sigríður Hrund Pétursdóttir, forsetaframbjóðandi og athafnakona, óskar eftir því að ráða samskiptaskapara fyrir framboð sitt, til sigurvegferðar.

Þetta auglýsir Sigríður á tengslanetsvefnum Linkedin. Sigríður segist í samtali við Vísi ekki vera að leita að nýjum samskiptastjóra, um sé að ræða aðra stöðu. 

Hödd Vilhjálmsdóttir almannatengill sagði starfi sínu lausu sem samskiptastjóri Sigríðar í janúar. Hödd sagði í samtali við Vísi við tilefnið að þær Sigríður hefðu ekki séð verkefnið sömu augum.

Sigríður Hrund tilkynnti forsetaframboð sitt þann 12. janúar síðastliðinn í afmælisveislu sinni á Kjarvalsstöðum. Hún sagði við tilefnið tíma kominn á það aftur að forseti yrði titluð „Frú forseti.“

Landsleikurinn hafinn

Í auglýsingu sinni á Linkedin segir Sigríður að umsóknarfrestur sé til 10. febrúar næstkomandi. Hún spyr hvort viðkomandi tengi við ýmsa kosti. Nefnir hún meðal annars kraft og taktfestu í verkefnum, sköpunargleði, óttaleysi eða hugrekki, tjáningarfrelsi, mildi og styrk.

Þá segir hún það kost ef viðkomandi hafi í farteskinu framúrskarandi viðhorf með kímniblik í auga og nefnir hún fleira til. Einstaka lipurð í textagerð á íslensku sem og ensku, en ekki Chat GPT-4 og haldbært tengslanet sem hæfir verkefninu, eða færni um að skapa það hratt. Loks þarf viðkomandi að hafa grjót í maganum sem haggist ekki þó öldugangur aukist um stundarsakir.

„Landsleikurinn er hafinn. Þú kemur inn á í næstu sókn, tekur boltann á lofti með annarri hendi, skoppar ekki oftar en tvisvar í gólfi, tekur hraðahlaup fram og – skorar. Áfram Ísland!“

Sigríður Hrund birti starfsauglýsingu vegna starfsins.

Frétt uppfærð kl. 10:39.

Fram kom í upprunalegri útgáfu fréttarinnar að Sigríður væri án samskiptastjóra. Það hefur verið leiðrétt.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×