Innlent

Sparar sér að boða til kosninga strax

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra. Vísir/Vilhelm

Forsætisráðherra segir ríkisstjórnarflokkana ekki í fjölskyldu saman. Þeir axli því ekki ábyrgð hvort á öðrum líkt og móðir axli ábyrgð á börnum sínum. Ætlar ráðherra ekki að verða við ákalli formanns Viðreisnar um að boða til kosninga strax. Þetta kom fram í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi.

Þar ræddi Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, óeiningu á stjórnarheimilinu. Hún sagði Sjálfstæðismenn ala á ótta og óöryggi og nefndi útlendingamál sem dæmi. Þörf væri á stjórnfestu til þess að taka ákvarðanir í risamálum.

„Ef við erum ekki að fara að fá þessar ákvarðanir núna á næstunni sem ýta undir framfaramál, er þá ekki bara komið nóg af þessari ríkisstjórn, er ekki best að fara að horfast í augu við veruleikann og boða til kosninga?“

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar. Vísir/Vilhelm

Axli ábyrgð á eigin orðum

Katrín sagðist í svari til Þorgerðar hafa rætt merki skautunar í íslensku samfélagi í mörg ár. Þetta væri eitt stærsta áhyggjuefni hennar sem manneskju í íslensku samfélagi og væri ýmislegt sem spilar þar inn í.

„Hvað varðar ákall um kosningar þá ætla ég að spara mér að boða til þeirra strax. Það er mikið rætt um stöðuna og ég ætla ekkert að draga neinn dul á það að þetta eru ekki sömu flokkarnir,“ segir Katrín.

„Við erum heldur ekki í fjölskyldu saman, þessir flokkar. Við öxlum ekki ábyrgð hvert á öðru eins og móðir axlar ábyrgð á börnum sínum. Þegar einstaka þingmenn og einstaka ráðherrar fara með sínar skoðanir þá verða þeir auðvitað líka að bera ábyrgð á því sjálfir. Ég ætla að leyfa mér að segja það, bæði sem móðir og sem forsætisráðherra.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×