Fótbolti

Hlín skoraði fram­hjá ellefu mót­herjum á marklínunni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Íslenska landsliðkonan Hlín Eiríksdóttir var með þrennu um helgina.
Íslenska landsliðkonan Hlín Eiríksdóttir var með þrennu um helgina. @kristianstadsdff

Kristianstad byrjaði lífið án fyrrum þjálfara síns Elísabetar Gunnarsdóttur um helgina þegar sænska liðið spilaði fyrsta æfingarleik sinn fyrir komandi tímabil.

Það var þó annar Íslendingur sem sá til þess að allt færi vel hjá sænska liðinu.

Íslenska landsliðkonan Hlín Eiríksdóttir var nefnilega á skotskónum og skoraði þrennu í 4-1 sigri Kristianstad á Trelleborg.

Hlín skoraði mökin sína á 25., 77. og 82. mínútu en Tilda Sanden hafði skorað fyrsta mark liðsins á 21. mínútu.

Hlín skoraði ellefu mörk í sænsku deildinni á síðustu leiktíð og var næstmarkahæst í liðinu auk þess að vera stoðsendingahæst með sjö stoðsendingar. Það verður fróðlegt hvað hún gerir í sumar undir stjórn nýs þjálfara.

Leikurinn um helgina boðar allavega mjög gott.

Eitt marka sinna skoraði Hlín með skoti úr óbeinni aukaspyrnu. Hlín skoraði þá framhjá öllum ellefu leikmönnum Trelleborg, markverðinum og tíu útileikmönnum á marklínunni.

Það má sá þetta mark Hlínar hér fyrir neðan. Ef Instagram færslan birtist ekki er gott ráð að endurhlaða fréttina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×