Fótbolti

Udinese stuðnings­menn í fimm ára bann fyrir kynþáttaníð

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Stuðningsmenn Udinese beittu Mike Maignan kynþáttaníði.
Stuðningsmenn Udinese beittu Mike Maignan kynþáttaníði. EPA-EFE/GABRIELE MENIS

Fjórir stuðningsmenn Udinese voru dæmdir í fimm ára bann frá leikjum í ítölsku úrvalsdeildinni eftir að hafa beitt Mike Maignan, markvörð AC Milan, kynþáttaníði í leik liðanna á sunnudag. Udinese var gert að spila næsta heimaleik fyrir lokuðum dyrum vegna málsins. 

Atvikið átti sér stað snemma leiks, Maignan gekk þá af velli eftir að hafa heyrt ítrekuð apahljóð fyrir aftan sig. Liðsfélagar hans sóttu hann og sannfærðu um halda leik áfram. AC Milan vann á endanum dramatískan 3-2 sigur. 

Ítalska lögreglan hafði uppi á þremur mönnum og einni konu með aðstoð eftirlitsmyndavéla á vellinum, þau hafa öll verið dæmd í fimm ára bann frá knattspyrnuleikjum á Ítalíu. 

Persónuupplýsingar þeirra voru svo áframsendar til saksóknara sem mun kæra þau fyrir að etja til ofbeldis og mismununar, samkvæmt La Gazzetta. 

Udinese var skipað af ítölsku úrvalsdeildinni að spila næsta heimaleik gegn Monza fyrir lokuðum dyrum. Stuðningsmennirnir fjórir voru dæmdir í fimm ára bann frá öllum leikjum í úrvalsdeildinni en Udinese sjálft dæmdi þau í lífstíðarbann frá öllum leikjum félagsins. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×