Innlent

Séra Frið­rik felldur af stalli sínum

Jakob Bjarnar skrifar
Vinnuvélar hafa verið nýttar við verkið í Lækjargötu í morgun. Hér er öflugur höggbor að mölva stallinn niður.
Vinnuvélar hafa verið nýttar við verkið í Lækjargötu í morgun. Hér er öflugur höggbor að mölva stallinn niður. Vísir/Sigurjón

Starfsmenn borgarinnar eru í þessum skrifuðu orðum að fella séra Friðrik Friðriksson af stalli sínum.

Mikil umræða hefur verið um styttuna, sem hefur verið á besta stað við Lækjargötu, eftir að Guðmundur Magnússon sagnfræðingur upplýsti í nýlegri bók um Friðrik að hann hafi leitað á unga drengi. Séra Friðrik var æskulýðsfrömuður mikill og kom meðal annars að stofnum KFUM og KFUK á sínum tíma auk þess sem hann var stofnandi Vals.

Síra Friðrik tekinn af stalli sínum, hann tjóðraður og komið úr almannarýminu. Reykjavík

Borgarráð samþykkti tillögu Dags B. Eggertssonar þá borgarstjóra um að styttan yrði tekin niður og henni fundinn staður í listaverkageymslum Listasafns Reykjavíkur. 

Í tillögu Dags kemur fram að leitað hafi verið umsagnar hjá KFUM og KFUK og Listasafni Reykjavíkur um hvort taka ætti styttuna af stalli í ljósi ásakanna og sú varð niðurstaðan.

„Umsagnirnar liggja fyrir og hníga í sömu átt. Lagt er til við borgarráð að samþykkja að verkið verði tekið niður og því fundinn staður í listaverkageymslum Listasafns Reykjavíkur. Þá verði umhverfis- og skipulagssviði falið að koma með tillögur að frágangi svæðisins í samstarfi við Listasafn Reykjavíkur,“ segir um tillöguna.

Fyrir liggur að Gabríella Friðriksdóttir hefur verið fengin til að vinna styttu af tónlistarkonunni Björk og mun hún líklega taka sér stöðu þar sem séra Friðrik var áður.


Tengdar fréttir

Valur felur Friðrik

Knattspyrnufélagið Valur hefur ákveðið að fjarlægja styttu af séra Friðriki Friðrikssyni, stofnanda félagsins, sem hefur staðið á lóð félagsins. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Herði Gunnarssyni, formanni Vals.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×