Fótbolti

Sven-Göran Eriks­son hylltur í gær­kvöldi: „Nú fer ég bara að gráta“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sven-Göran Eriksson var klökkur yfir móttökunum sem hann fékk í gær.
Sven-Göran Eriksson var klökkur yfir móttökunum sem hann fékk í gær. Getty/Michael Campanella

Sænski knattspyrnuþjálfarinn Sven-Göran Eriksson fékk höfðinglegar móttökur á uppskeruhátíð sænska íþrótta, Idrottsgalan.

Eriksson var sérstakur heiðursgestur á kvöldinu og var hylltur sérstaklega þar sem menn eins og Wayne Rooney og John Terry sendu honum kveðju.

Eriksson sagði frá því á dögunum að hann væri með illvígt krabbamein og ætti innan við ár eftir ólifað. Hann heldur upp á 76 ára afmælið sitt í næsta mánuði.

Síðan þá hefur hann fengið kveðjur alls staðar af úr heiminum og margir vilja hjálpa honum að upplifa drauma sína. Meðal þeirra er Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, sem bauð honum að vera stjóri Liverpool í einn dag sem og að félagið bauð Svíanum að stýra goðsagnaliði félagsins á Anfield.

Eriksson, sem stýrði enska landsliðinu í fimm ár, sagði það vera draum sinn að fá að stýra Liverpool.

Eriksson var klökkur á hátíðinni þegar hann kom upp á svið og þakkaði fyrir stuðninginn og kveðjurnar.

„Takk öllsömul. Nú fer ég bara að gráta,“ sagði Eriksson.

„Þetta var svo ótrúlega fallegt. Þakkir til allra minna íþróttavina. Ég á þetta ekki allt skilið. Ég á eiginlega engin orð,“ sagði Eriksson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×