Innlent

Ekkert lát á land­risi við Svarts­engi

Margrét Björk Jónsdóttir skrifar
Unnið að varnargörðum við Svartsengi. Kvikusöfnun heldur áfram með svipuðum hætti og áður og má búast við að til tíðinda dragi á ný eftir nokkrar vikur.
Unnið að varnargörðum við Svartsengi. Kvikusöfnun heldur áfram með svipuðum hætti og áður og má búast við að til tíðinda dragi á ný eftir nokkrar vikur. Vísir/Arnar

Land við Svartsengi er komið talsvert hærra en áður hefur mælst á svæðinu. Nú þegar slétt vika er liðin frá hinu skammvinna eldgosi við Grindavík er ekkert lát á landrisinu. Búast má við nýju kvikuinnskoti og mögulegu eldgosi eftir nokkrar vikur.

Þetta kemur fram í nýrri færslu á vef Eldfjalla-og náttúruváhóp Suðurlands. Þar segir að ólíkt fyrri atburðum, hafi ekkert sig mælst í Svartsengi þegar kvikuinnskotið myndaðist sunnudaginn 14. janúar, líkt og sjá má á meðfylgjandi mynd.

Lóðrétt færsla á mæli í Svartsengi.
Kort frá Veðurstofunni sem sýnir legu nýja sigdalsins um austanverða Grindavík. Veðurstofan

„Þetta frávik (þ.e.a.s. skortur á sigi) í Svartsengi hefur verið skýrt sem svo að landris af völdum innskotsins sem fór undir Grindavík hafi vegið upp á móti því sigi sem hefði annars orðið í Svartsengi,“ segir í færslunni.

Þá sýna líkön að upptakasvæði innskotsins hafi verið nokkuð vestar en þeirra tveggja sem urðu í desember og nóvember. Því komi ekkert sig fram á GPS mælinum í Svartsengi.

Búast við að dragi til tíðinda eftir nokkrar vikur

Kvikusöfnun heldur því áfram með svipuðum hætti og áður og má búast við að til tíðinda dragi á ný eftir nokkrar vikur. Fram hefur komið að nýr sigdalur hafi myndast innanbæjar í Grindavík. Nú fyrir helgi hafði sig innan dalsins mælst alls 1,3 m frá síðustu helgi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×