Fótbolti

Onana stóð ekki í markinu þegar Kamerún gerði jafn­tefli

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Franck Mario Magri jafnaði metin fyrir Kamerún.
Franck Mario Magri jafnaði metin fyrir Kamerún. Ulrik Pedersen/Getty Images

Þrátt fyrir að ná að mæta til leiks þá stóð André Onana, markvörður Manchester United, ekki í marki Kamerún þegar liðið gerði 1-1 jafntefli við Gíneu í fyrsta leik þjóðanna á Afríkumótinu í knattspyrnu.

Mikið hafði verið látið með að Onana gæti spilað tvo leiki á rétt rúmum sólahring en í gærkvöld stóð hann vaktina í marki Man United þegar liðið gerði 2-2 jafntefli við Tottenham Hotspur. Það virtist sem planið væri að hann myndi spila leik Kamerún og Gíneu í kvöld en allt kom fyrir ekki.

Þrátt fyrir seinkun var Onana mættur þegar leikurinn fór fram, hann var hins vegar upp í stúku. Í hans stað var Fabrice Ondoa, markvörður Nimes í Frakklandi, í marki Kamerún. Hvort fjarvera Onana hafi verið ástæða þess að Kamerún tapaði stigum er óvitað en ljóst er að Kamerún var fyrir fram talið sterkara liðið.

Það kom því á óvart þegar Mohamed Bayo, leikmaður Le Havre í Frakklandi, kom Gíenu yfir á 10. mínútu. Reyndist það eina mark fyrri hálfleiks en undirlok hans fékk Francois Kamano beint rautt spjald og Gínea manni færri það sem eftir lifði leiks. Það nýtti Franck Magri, leikmaður Toulouse í Frakklandi, sér þegar hann jafnaði metin fyrir Kamerún snemma í síðari hálfleik.

Mörkin urðu hins vegar ekki fleiri en þrátt fyrir að vera 70 prósent með boltann gekk Kamerún einkar illa að brjóta vörn Gíneu á bak aftur. Lokatölur 1-1 og þjóðirnar því í 2. og 3. sæti C-riðils með eitt stig á meðan Senegal er á toppnum eftir 3-0 sigur á Gambíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×