Innlent

Edda Björk dæmd í tuttugu mánaða fangelsi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Edda með tveimur drengjanna.
Edda með tveimur drengjanna.

Edda Björk Arnardóttir hefur verið dæmd í tuttugu mánaða fangelsi fyrir að nema börn sín á brott frá Noregi. Aðalmeðferð í máli Eddu Bjarkar fór fram í þingsréttinum í Þelamörk í desember og nú hefur norskur dómstóll kveðið upp dóm sinn.

Leifur Runólfsson, lögmaður sem gætt hefur hagsmuna föðurins hér á landi, staðfestir niðurstöðuna við Vísi. Nútíminn greindi fyrst frá. Dómurinn er óskilorðsbundinn.

Edda Björk flaug sonum sínum þremur frá Noregi til Íslands með einkaflugvél í mars 2022. Föður drengjanna hafði þá verið dæmd forsjá þeirra fyrir norskum dómstólum.

Edda var handtekin í nóvember síðastliðinum og í framhaldinu flutt til Noregs eftir að dómstólar féllust á framsal hennar þangað. Ákæruvaldið hafði krafist sautján mánaða fangelsis. Lögreglan á Íslandi leitaði að drengjunum og fundust þeir þann 21. desember síðastliðinn. Við sama tilefni voru systir Eddu og lögmaður hennar handtekin.

Faðir drengjanna flaug með drengina til Noregs að kvöldi þess dags.

Edda var jafnframt dæmd til að greiða 35 þúsund norskar krónur í miskabætur og 75 þúsund norskar krónur í annan kostnað svo sem ferðakostnað. Samanlagt jafnvirði um 1,5 milljónir íslenskra króna.

Sú ákvörðun að fallast á framsalsbeiðni Noregs í nóvember var harðlega gagnrýnd víða í samfélaginu. Í yfirlýsingu Guðrúnar Hafsteinsdóttur dómsmálaráðherra í desember sagði að mál er varði börn og fjölskyldur séu með þeim viðkvæmustu og erfiðustu sem stjórnvöld fáist við. Því séu gerðar ríkar kröfur um að starfað sé eftir skýrum lögum og reglum með það að leiðarljósi að gæta allra viðeigandi hagsmuna í hverju máli fyrir sig.

„Vegna þess máls sem verið hefur til umfjöllunar í fjölmiðlum er mikilvægt að árétta að þær ákvarðanir sem verið er að framfylgja hafa verið teknar af sjálfstæðum stjórnvöldum á grundvelli laga.“


Tengdar fréttir

Yngsti drengurinn hafi ekki hitt bræður sína í tvær vikur

Lögmaður barnsföður Eddu Bjarkar Arnardóttur segir drengina þrjá sem fluttir voru til Noregs í gær ekki hafa verið alla saman síðustu tvær vikur. Kæra hafi verið lögð fram á hendur þeim sem hafi aðstoðað við að fela drengina þegar leitað var að þeim.

Tveir synir Eddu Bjarkar sagðir fundnir

Tveir synir Eddu Bjarkar Arnardóttur, sem leitað hefur verið síðan hún flutti þá frá Noregi, eru fundnir. Systir hennar og lögmaður hennar hafa verið handtekin. Þriðja sonarins er enn leitað.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×