Fótbolti

Rubiales segir að allir styðji sig og Hermoso ljúgi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Luis Rubiales ásamt móður sinni.
Luis Rubiales ásamt móður sinni. getty/Burak Akbulut

Luis Rubiales segir hafa fundið fyrir gríðarlegum stuðningi eftir að hann hætti sem forseti spænska knattspyrnusambandsins og var dæmdur í þriggja ára bann fyrir að hafa kysst Jennifer Hermoso eftir úrslitaleik HM.

Sem kunnugt er smellti Rubiales óumbeðnum rembingskossi á Hermoso eftir úrslitaleik Spánar og Englands á HM í Eyjaálfu í ágúst síðastliðnum. Upphófst þá mikið fjaðrafok, Rubiales var víða fordæmdur, sagði á endanum af sér forseti spænska knattspyrnusambandsins og var dæmdur í þriggja ára bann frá fótbolta.

Í nýlegu viðtali við EL ESPANOL segist Rubiales hafa fundið fyrir miklum stuðningi og segir að fjölmargar konur hafi komið að máli við sig og fundist hann sæta illri meðferð eftir skandalinn.

„Allir sem stoppa mig úti á götu segja að ég hafi hafi verið beittur órétti. Ég er ekki að tala um 20-30 prósent heldur allir. Ég held að þeir hafi áttað sig á að þeir vildu nota mál mitt til að skyggja á önnur mál og dreifa athyglinni frá mikilvægum atburðum á Spáni,“ sagði Rubiales.

Hann segir að Hermoso hafi sagt ósatt um samskipti þeirra eftir úrslitaleikinn.

„Ég spurði hana bara og hún sagði já. Hún sagði að þetta væri allt í lagi. Jenni Hermoso var vinur minn. Málið er að árin á undan hafði hún beðið mig um hluti og verið dónaleg. Þannig talaði hún við mig,“ sagði Rubiales.

„Hvað er femínismi og hvað er jafnrétti fyrir Jenni Hermoso og sumt fólk? Skipta um skoðun? Ljúga? Því það gerði hún.“

Auk þess að vera dæmdur í þriggja ára bann frá fótbolta fékk Hermoso nálgunarbann á Rubiales.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×