Erlent

Upprættu ó­lög­legan út­flutning eðla til Hong Kong

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Innflutningur dýra er hvergi meiri en í Hong Kong.
Innflutningur dýra er hvergi meiri en í Hong Kong. Lögreglan í Nýju Suður Wales

Lögregluyfirvöld í Nýju Suður Wales hafa handtekið þrjá menn og eina konu í tengslum við ólöglegan útflutning á eðlum frá Ástralíu til Hong Kong. Lagt var hald á eðlur sem eru sagðar hafa verið 111 milljón króna virði.

Sérstök sveit var sett á laggirnar í september síðastliðnum til að rannsaka smyglið, eftir að yfirvöld lögðu hald á 59 lifandi eðlur í níu kössum. Ráðist var í húsleitir á síðustu vikum og hald lagt á 118 lifandi eðlur til viðbótar, 25 dauðar, þrjá snáka og átta egg.

Handteknu eru á aldrinum 31 til 59 og hafa verið ákærð fyrir ólöglegan útflutning, að höndla með ólöglegan ágóða og fyrir þátttöku í skipulögðum glæpahóp. Þau eiga yfir höfði sér allt að fimmtán ára fangelsi.

Samkvæmt World Wildlife Fund er innflutningur exótískra dýra hvergi meiri en í Hong Kong. Þá sagði í skýrslu ADM Capital Foundation árið 2021 að á fimm ára tímabili hefðu fjórar milljónir lifandi dýra verið fluttar inn til borgarinnar frá að minnsta kosti 84 ríkjum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×