Fótbolti

Svíar að ráða nýja lands­liðs­þjálfara

Smári Jökull Jónsson skrifar
Mellberg sést hér á Villa Park heimavelli Aston Villa í maí síðastliðnum en hann var þá heiðursgestur á leik liðsins gegn Brighton.
Mellberg sést hér á Villa Park heimavelli Aston Villa í maí síðastliðnum en hann var þá heiðursgestur á leik liðsins gegn Brighton. Vísir/Getty

Olof Mellberg verður næsti landsliðsþjálfari sænska karlalandsliðsins í knattspyrnu. Þetta kemur fram á miðlinum Fotbollskanalen.

Olof Mellberg lék sjálfur með landsliðinu á árunum 2000-2012 og lék alls 117 leiki fyrir sænska landsliðið. Á ferli sínum lék hann meðal annars með Juventus og Villareal en lengst af lék hann með Aston Villa í ensku úrvalsdeildinni. Hann á að baki rúmlega 200 leiki á Englandi. 

Síðan skórnir fóru á hilluna árið 2014 hefur Mellberg verið knattspyrnustjóri Brommapojkarna, Fred Amager og Helsingborg.

Mellberg tekur við starfinu af Janne Anderson sem verið hefur landsliðsþjálfari frá árinu 2016 en lét af störfum að lokinni undankeppni EM þar sem Svíar áttu ekki góðu gengi að fagna.

Þá er greint frá því að möguleiki sé á að Tony Gustavsson aðstoði Mellberg hjá landsliðinu en hann er núverandi þjálfari ástralska kvennalandsliðsins. Ástralir eru hins vegar tregir að sleppa Gustavsson enda framundan undankeppni Ólympíuleikanna og svo mögulega sjálfir Ólympíuleikarnir næsta sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×