Innlent

Fá leyfi til að vera á­fram: „Baráttuviljinn það síðasta sem má missa“

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Palestínumennirnir og aðgerðasinnarnir sem eru þeir innan handar hafa fengið leyfi frá Reykjavíkurborg til að hafa tjöldin áfram á Austurvelli.
Palestínumennirnir og aðgerðasinnarnir sem eru þeir innan handar hafa fengið leyfi frá Reykjavíkurborg til að hafa tjöldin áfram á Austurvelli. aðsend

Aðgerðasinnar, sem hafa staðið fyrir mótmælum til að knýja á um að stjórnvöld hjálpi dvalarleyfishöfum á Gasa að komast út af svæðinu, fengu í dag leyfi frá Reykjavíkurborg til að vera áfram með tjaldbúðirnar á Austurvelli. Fólkið hefur almennt mætt velvild en þó með tveimur alvarlegum undantekningum.

Palestínumenn, búsettir eru hér á landi, hafa nú í rúma viku dvalið í tjöldum fyrir utan Alþingi í öllum mögulegum veðrum en þó mest frosti og snjó. 

Palestínumenn og aðgerðasinnar hafa nú dvalið í tjöldunum í rúma viku og þeir eru ekki á förum.Aðsend

Þeir segja tjaldbúðirnar vera táknrænar fyrir þær tjaldbúðir sem heimilislausar fjölskyldur þeirra á Gasa dvelja í vegna árása Ísraelshers. Þeir vilja að stjórnvöld beiti sér með kraftmeiri hætti til að fylgja eftir ákvörðunum um fjölskyldusameiningu. Askur Hrafn Hannesson er einn þeirra sem hefur verið fólkinu innan handar.

„Nú erum við að byrja á áttunda deginum okkar í tjaldbúðunum og við áformum að vera enn lengur. Við erum núna komin með leyfi sem gildir til 17. janúar.“

Hann segir fólkið almennt séð hafa mætt velvild. Íslendingar hafi fært þeim alls konar mat og nauðsynjar en undanfarna daga urðu tvær alvarlegar uppákomur.

„Það voru tveir menn sem virtust bara mættir þangað til að vera með leiðindi og fúkyrði. Annar þeirra var heldur ógnandi þannig að lögreglan mætti á svæðið, handtók hann og tók hann til hliðar. Hann eyðilagði meðal annars eitt tjaldið okkar en við höfum nú fengið að láni nýtt tjald.“

Einn Palestínumannanna náði fúkyrðaflauminum á upptöku en þar má heyra uppnefni á borð við „Hamas-rottur.“

Tekur fólkið þetta nærri sér?

„Auðvitað er þetta mjög óþægilegt. En við reynum að standa saman og hlúa að hvert öðru.“

Askur segir að enginn úr ríkisstjórninni hafi gert sér ferð til þeirra til að ræða málin en fólkið hefur ítrekað kallað eftir því.

„Nei, það er engin hlustun og engin svör og þess vegna íhugum við einmitt að halda mótmælunum töluvert lengur áfram og reyna að finna einhverjar aðrar aðferðir til að láta í okkur heyra.“

Palestínumennirnir bíða milli vonar og ótta um hvað verður um fjölskyldur sínar sem búa við skelfilegar aðstæður á Gasa.aðsend

Fer vonin ekkert dvínandi?

„Nei í aðstæðum eins og þessum þá er baráttuviljinn það síðasta sem má missa.“


Tengdar fréttir

Skilur örvæntinguna en segir málið flókið og í skoðun

Ef fram heldur sem horfir á Gasa verða brátt engar fjölskyldur til að sameina á Íslandi. Þetta segja aðgerðasinnar á Austurvelli. Ráðherrar funduðu um stöðu fólksins sem fast er á Gasa í morgun. Félagsmálaráðherra segir stöðuna flókna og að verið sé að kanna hvaða möguleikar séu í stöðunni. Hann kveðst skilja örvæntingu Palestínumannanna.

Fjölskylda fjórtán ára drengs föst á Gasa

Palestínskur drengur biðlar til stjórnvalda að koma foreldrum sínum og systkinum út úr Gasa. Í nótt gisti hann, í reginkulda, í tjaldi á Austurvelli og þar hyggst hann og fleiri Palestínumenn dvelja þar til fjölskyldur þeirra eru komnar í öruggt skjól. Þingmaður Pírata segir orð ekki duga til, nú þurfi aðgerðir.

„Við fylgjumst bara með fjölskyldu okkar deyja smám saman“

Palestínumenn með samþykkta fjölskyldusameiningu hafa reist tjöld fyrir utan Alþingi til að minna á fjölskyldur sínar sem hafast við í tjöldum á götum Gasa við skelfilegar aðstæður. Þeir segja tímann á þrotum og að þeir neyðist til að fylgjast með fjölskyldum sínum vera því sem næst við dauðans dyr.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×