Innlent

Kviku­þrýstingur að byggjast upp og líkur á eld­­gosi aukast

Atli Ísleifsson skrifar
Um er að ræða sambærilega breyting á landrisi sem fór að sjást í lok dags 15. desember, en þá hófst gos um þremur dögum síðar.
Um er að ræða sambærilega breyting á landrisi sem fór að sjást í lok dags 15. desember, en þá hófst gos um þremur dögum síðar. Vísir

Vísbending um að kvikuþrýstingur sé að byggjast upp og þar með aukast líkur á nýju kvikuhlaupi og einnig eldgosi.

Þetta kemur fram á vef Veðurstofunnar í færslu sem birt var 11:45. Þar segir að landrisið við Svartsengi sé að hægja á sér og að þetta hafi fengist staðfest með GPS gögnum sem hafi verið til umræðu á samráðsfundi vísindafólks á vegum Veðurstofunnar í morgun.

„Það að landris hægi á sér er vísbending um að kvikuþrýstingur sé að byggjast upp og þar með aukast líkur á nýju kvikuhlaupi og einnig eldgosi. Þetta er sambærileg breyting á landrisi sem fór að sjást í lok dags 15. desember, en þá hófst gos um þremur dögum síðar. Erfitt er þó að fullyrða um hvort að það munstur endurtaki sig.

Fyrstu merki um að kvikuhlaup sé hafið er skyndileg aukning í skjálftavirkni, en slík merki sáust rétt áður en eldgosið hófst 18. desember,“ segir í færslunni. 

Skjálftavirknin verið stöðug

Undanfarna daga hefur skjálftavirkni á svæðinu verið nokkuð stöðug, en í kringum tvö hundruð skjálftar hafa mælst á dag. 

„Flestir skjálftanna mælast undir 1,0 að stærð en um 30 skjálftar yfir 1,0 hafa mælst frá 29. desember og sá stærsti var 2,1 að stærð og átti upptök í nyrsta hluta Grindavíkur.

Hættumatskort sem gildir til 5. janúar næstkomandi. Veðurstofan

Það er áfram mat vísindamanna að ef til eldgoss kemur, er líklegast er að það gjósi aftur á Sundhnúksgígaröðinni, á milli Stóra-Skógfells og Hagafells. Það er hins vegar mikilvægt að rifja upp að kvikuhlaup enda ekki alltaf í eldgosi, eins og dæmi eru um í tengslum við virknina við Fagradalsfjall og eins í Kröflueldum.

Hættumatskort sem Veðurstofan gaf út 29. desember er óbreytt og gildir til 5. janúar að öllu óbreyttu.

Áfram mælist skjálftavirkni í vestanverðu Fagradalsfjalli en þar hafa rúmlega 100 smáskjálftar mælst frá 29. desember. Rýnt verður nánar í aflögunargögn á næstunni til að fá skýrari mynd á stöðuna við Fagradalsfjall,“ segir á vef Veðurstofunnar. 

Vinna við varnargarða hefst í dag

Um hádegi í dag rennur út frestur jarðeigenda og hagsmunaaðila til þess að gera athugasemdir við byggingu varnargarða norðan við Grindavík. 

Er gert ráð fyrir því að varnargarðarnir verði samtals sjö kílómetrar að lengd og að hann þveri bæði Grindavíkurveg og Suðurstrandarveg. Garðarnir verða byggðir í tveimur áföngum en vinna við fyrri áfangann hefst sem fyrst en stefnt er að vinna við seinni áfangann hefjist í vor eða sumar.


Tengdar fréttir

Senni­lega spurning um tíma frekar en hvort

Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur segir stöðuna við Svartsengi vera óbreytta þar sem land hefur haldið áfram að rísa sem sé merki um að verið sé að safna í nýtt kvikuhlaup eða að nýtt gos sé yfirvofandi. „Það er því sennilega spurning um tíma frekar en hvort.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×