Innlent

„And­stæðingar mínir eru örugg­lega að vona að ég hætti“

Jón Þór Stefánsson skrifar
Bjarni Benediktsson segist ekki vera að íhuga að hætta í stjórnmálum.
Bjarni Benediktsson segist ekki vera að íhuga að hætta í stjórnmálum. Vísir/Hulda Margrét

Bjarni Benediktsson, utanríkisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, segist ekki vera að íhuga að hætta í stjórnmálum.

Þetta kom fram í Kryddsíldinni á Stöð 2, en þar var hann var spurður út í ummæli Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, fjármálaráðherra og varaformanns flokksins, sem segist vera orðin tilbúin að taka við formennsku í flokknum.

Ertu að íhuga að láta þetta gott heita?

„Nei. Ég er ekkert að íhuga það. Þið fjölmiðlamenn eruð ítrekað að spyrja mig að þessu,“ svaraði Bjarni sem rifjaði upp aðdraganda síðustu kosninga. „Ímyndið ykkur þetta: Í kosningasjónvarpi Ríkissjónvarpsins fyrir síðustu kosningar, daginn áður enn átti að kjósa fæ ég spurninguna: „Hvenær ætlar þú að segja af þér?““

Bjarni uppskar hlátur, en bætti sjálfur við: „Menn hlægja af þessu hérna, en þetta er bara staðreynd. Þetta er minn veruleiki. Svona er komið fram við mann. Ég er að leiða þetta ríkisstjórnarsamstarf og ég er nýkominn í embætti utanríkisráðherra, og þú spyrð mig: Hvenær ætlar þú að hætta?“

Hann ítrekaði að hann hygðist ekki vera að hætta. „Andstæðingar mínir eru örugglega að vona að ég hætti, því ég hef verið þeim erfiður. Þess vegna hef ég verið lengi í þessu.“

Sjálfstæðisflokkurinn er enn stærsti flokkurinn á Alþingi benti Bjarni og þó Samfylking mælist stærri sagðist Bjarni hafa lært af sínum stjórnmálaferli að hundsa þær.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×