Fótbolti

Úti­lokar að Osimhen sé á förum þrátt fyrir klásúlu í samningi

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Victor Osimhen er ekki á förum frá Napoli.
Victor Osimhen er ekki á förum frá Napoli. Vísir/Getty

Roberto Calenda, umboðsmaður nígeríska framherjans Victors Osimhen, hefur blásið á þær sögusagnir að leikmaðurinn sé opinn fyrir því að yfirgefa Napoli í sumar.

Osimhen skrifaði undir nýjan samning við ítölsku meistarana í gær, aðfangadag, sem gildir til ársins 2026. Þrátt fyrir nýja samninginn fóru sögur á kreik um það að framherjinn gæti verið opinn fyrir því að yfirgefa félagið næsta sumar.

Ástæða sögusagnanna er klásúla í samningi Osimhen sem gerir liðum utan ítölsku deildarinnar að virkja kaupákvæði næsta sumar fyrir ákveðna upphæð, sem er talin vera á bilinu 120-130 milljónir evra.

Calenda segir þó að það sé ekki rétt að Osimhen sé að hugsa sér til hreyfings næsta sumar og segir að ef að þeir hefðu viljað yfirgefa Napoli þá hefðu þeir sagt frá því.

„Ég er búinn að heyra að ég hafi ekki viljað að hann myndi endurnýja og að ég hefði viljað fara með hann eitthvað annað,“ sagði Calenda. 

„Það er eins og það er. Það þarf alltaf að reyna að finna einhvern sökudólg. Þetta var bara ekki rétt. Ég er fulltrúi Victors og ég vil bara það besta fyrir hann. Við vildum báðir nýjan samning við Napoli síðan síðasta sumar.“

„Það bárust nokkur tilboð síðasta sumar. Nokkur risatilboð. En De Laurentiis [eigandi Napoli] vildi halda honum og við vorum til í það. Ef við hefðum viljað fara þá hefðum við sagt honum það,“ sagði Calenda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×