Fótbolti

Solskjær gæti snúið aftur í þjálfun í Tyrk­landi

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Ole Gunnar Solskjær stýrði Manchester United fram í nóvember 2021.
Ole Gunnar Solskjær stýrði Manchester United fram í nóvember 2021. Vísir/Getty

Ole Gunnar Solskjær, fyrrverandi þjálfari Manchester United, er talinn líklegasti kandídatinn til að taka við tyrkneska liðinu Besiktas.

Solskjær hefur ekki starfað sem þjálfari síðan hann var látinn taka poka sinn hjá United í nóvember árið 2021 eftir slæmt gengi liðsins í upphafi tímabils það árið.

Breski miðillinn The Mirror greinir nú frá því að Norðmaðurinn sé talinn líklegastur til að taka við Besiktas í tyrknesku úrvalsdeildinni, en félagið leitar nú að sínum þriðja þjálfara á tímabilinu eftir að Riza Calimbay var látinn fara. Calimbay stoppaði stutt við og stýrði liðinu aðeins í sjö leikjum.

Að því er fram kemur á heimasíðu The Mirror er Ole Gunnar Solskjær talinn líklegasti eftirmaður Calimbay og hefur hann nú þegar rætt við forráðamenn félagsins.

Besiktas situr í fimmta sæti tyrknesku deildarinnar með 26 stig eftir 16 leiki, heilum 18 stigum á eftir toppliði Fenerbache. Forráðamenn félagsins eru óánægðir með það sem þeir telja metnaðarlausa tilraun til að gera atlögu að titlinum eða sæti í Meistaradeild Evrópu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×