Fótbolti

Mark og stoðsending Alberts tryggði sigur

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Albert Guðmundsson heldur áfram að sýna snilli sína í ítölsku úrvalsdeildinni.
Albert Guðmundsson heldur áfram að sýna snilli sína í ítölsku úrvalsdeildinni. Getty/Simone Arveda

Albert Guðmundsson tryggði Genoa 2-1 sigur á útivelli gegn Sassuolo með marki og stoðsendingu. AC Milan gerði svo óvænt jafntefli gegn botnliði Salernitana. 

Albert hefur verið sjóðheitur með Genoa á tímabilinu. Hann skoraði jöfnunarmark Genoa úr vítaspyrnu, eftir að Andrea Pinamonti hafði komið Sassuolo yfir á 28. mínútu, og lagði sigurmarkið svo upp á Caleb Ekuban undir lok leiks. Albert er nú kominn með 7 mörk og 1 stoðsendingu úr 15 leikjum í ítölsku úrvalsdeildinni. 

Hann hefur vakið athygli stórliða á borð við AC Milan, sem situr í 3. sæti deildarinnar en náði aðeins að sækja eitt stig úr viðureign sinni gegn Salernitana.  Salernitana situr á botni deildarinnar með níu stig en var óheppið að hirða ekki öll stigin þrjú úr viðureign kvöldsins. 

Milan komst snemma yfir en Salernitana jafnaði undir lok fyrri hálfleiks og komst svo 2-1 yfir á 63. mínútu, þeir vörðust vel fram á síðustu mínútu en þá jafnaði Luka Jovic fyrir AC Milan og tryggði þeim stigið. 

Úrslit dagsins úr ítalska boltanum:

Empoli - Lazio 0-2 

Sassuolo - Genoa 1-2

Monza - Fiorentina 0-1

Salernitana - Milan 2-2

Genoa eru nýliðar í úrvalsdeildinni en hefur tekist að halda sig algjörlega utan fallbaráttunnar. Liðið er í 13. sæti með 19 stig úr 17 leikjum. AC Milan er sem áður segir í 3. sæti deildarinnar en nágrannar þeirra í Inter verma toppsætið. Fiorentina fylgir fast eftir í 4. sæti, aðeins þremur stigum á eftir AC Milan. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×