Fótbolti

Stórliðin keppast við að for­dæma evrópsku Ofurdeildina

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Stuðningsmenn liða voru langt frá því að vera sáttir við fyrri áform um evrópska Ofurdeild og í þetta sinn mótmæla flest stórliðin áformunum einnig.
Stuðningsmenn liða voru langt frá því að vera sáttir við fyrri áform um evrópska Ofurdeild og í þetta sinn mótmæla flest stórliðin áformunum einnig. Vísir/Getty

Hvert evrópska stórliðið á fætur öðru hefur sent frá sér yfirlýsingar í dag og í kvöld þess efnis að liðið ætli sér ekki að taka þátt í fyrirhugaðri Ofurdeild.

Fyrr í dag bárust fréttir af því að Evrópudómstóllinn hafi tekið fyrir baráttuaðferðir Alþjóða knattspyrnusambandsins, FIFA, og Evrópska knattspyrnusambandsins, UEFA, gegn þeim sem reyna að stofna nýjar knattspyrnukeppnir eins og hina umdeildu Ofurdeild Evrópu.

Í kjölfarið birtust svo áform um að endurvekja hugmyndina um hina umdeildu Ofurdeild, en í þetta sinn ætla skipuleggjendur deildarinnar að bjóða alls 96 liðum að taka þátt, 64 í karlaflokki og 32 í kvennaflokki.

Keppt yrði í þremur riðlum í karlaflokki: Gull-, Silfur- og Bláum-riðli, og í kvennaflokki yrði keppt í Gull- og Silfurriðli. Þá yrði hægt að falla um deild og vinna sér inn sæti í efri deild með þessum nýju áformum ef af Ofurdeildinni verður. Auk þess segja skipuleggjendur mótsins að áhorfendur muni getað horft á alla leikina frítt í gegnum nýja streymisveitu, en þó sé hægt að borga fyrir veituna án auglýsinga.

Flest stórliðin enn mótfallin hugmyndinni

Þrátt fyrir að skipuleggjendur séu stórhuga eru þó flest stórlið Evrópu enn mótafallin því að stofnuð verði evrópsk Ofurdeild. Hin ýmsu lið hafa sent frá sér yfirlýsingar þar sem hugmyndinni er mótmælt.

Manchester United, sem var eitt af þeim liðum sem studdi upprunalegu hugmyndina um Ofurdeild, var eitt fyrsta liðið til að senda frá sér tilkynningu.

Lið á borð við Manchester City, Chelsea, Tottenham, Bayern München, Inter, Roma og Paris Saint-Germain eru einnig meðal þeirra liða sem hafna hugmyndinni.

Þó er augljóst að ekki öll félög eru á móti slíkri Ofurdeild. Spænska stórveldið Real Madrid og Ítalíumeistarar Napoli eru meðal þeirra sem styðja hugmyndina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×