Innlent

Vís­bendingar um að kvikusöfnun sé hafin að nýju

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Viðbragðsaðilar í grennd við Svartsengi.
Viðbragðsaðilar í grennd við Svartsengi. Vísir/Arnar

Vísbendingar eru um að kvikusöfnun sé hafin að nýju undir Svartsengi. Náttúruvásérfræðingur segir sérfræðinga búa sig undir möguleikann á ítrekaðri virkni.

„Það lítur út fyrir að kvikusöfnun sé hafin að nýju, en þetta er enn óskýrt merki. Það er vísbending um það en merkið er lítið svo það er ekki hægt að segja það með hundrað prósent vissu á þessum tímapunkti,“ segir Sigríður Kristjánsdóttir, náttúruvásérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands.

Það gæti sumsé verið að það muni gjósa aftur á sama svæði?

„Það lítur í hið minnsta út fyrir að við séum að fara í svona endurtekið ferli. Við höfum séð þetta áður og þekkjum þetta frá öðrum svæðum, eins og Kröflu og annars staðar,“ segir Sigríður.

Kvika safnist saman, spýtist upp í kvikugang og svo stöðvist söfnunin að nýju og þá hlaðist kerfið aftur. Þá fyllast hólf aftur þar til þrýstingur sé orðinn nægur og þá getur gos hafist aftur.

„Ef við lítum til Kröflu erum við að horfa upp á eitthvað sem gæti verið í gangi í nokkur ár. Það er ekki hægt að segja að þetta verði alveg eins en það er það sem við erum að undirbúa okkur undir, að við séum að fara inn í tímabil ítrekaðrar virkni.“

Hún segir að tíminn verði að leiða í ljós hvernig eða hvort gjósi að nýju á svæðinu. Hægt sé að horfa til þess að eldgosin fjögur sem orðið hafi á Reykjanesskaga undanfarin ár séu hluti af sama jarðsögulega viðburði.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×