Fótbolti

Litla silfurliðið á eftir Aroni

Sindri Sverrisson skrifar
Aron Sigurðarson lék í dönsku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð og stóð sig vel. Hér er hann í baráttu við Stefán Teit Þórðarson í leik við Silkeborg.
Aron Sigurðarson lék í dönsku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð og stóð sig vel. Hér er hann í baráttu við Stefán Teit Þórðarson í leik við Silkeborg. Getty/Lars Ronbog

Knattspyrnumaðurinn Aron Sigurðarson er í sigti tveggja, öflugra sænskra úrvalsdeildarfélaga sem gætu reynt að klófesta hann nú í vetur.

Frá þessu greinir Tipsbladet í Danmörku en Aron hefur verið leikmaður danska liðsins AC Horsens í rúm tvö ár. 

Um er að ræða Häcken og Hammarby, sem urðu í 3. og 7. sæti sænsku deildarinnar í ár. Í Svíþjóð fær liðið í 2. sæti „stóra silfrið“ og liðið í 3. sæti „litla silfrið“, sem í þessu tilviki fór til Häcken. Liðið í 4. sæti fær svo brons. 

Aron komst með Horsens upp í úrvalsdeild á fyrstu leiktíð og skoraði sjö mörk í úrvalsdeildinni í fyrra þegar liðið féll aftur. Á vef Tipsbladet er Aroni lýst sem einum aðalleikmanna Horsens, bæði á síðustu leiktíð og nú í haust en hann hefur skorað fjögur mörk í 18 leikjum í 1. deildinni það sem af er leiktíð.

Á vef Fótbolta.net var greint frá því í gærkvöld að Aron hefði hafnað tilboði um nýjan samning hjá Horsens, en núgildandi samningur hans rennur út næsta sumar. Samkvæmt frétt miðilsins kemur til greina hjá Aroni að koma heim til Íslands og spila hér næsta sumar.

Aron, sem er þrítugur, á að baki 8 A-landsleiki. Hann er uppalinn hjá Fjölni en fór í atvinnumennsku árið 2016 og hefur spilað í Noregi, Belgíu og nú Danmörku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×