Erlent

Segir 200 þúsund land­nema þurfa að víkja fyrir tveggja ríkja lausn

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Seidermann segir þá sem munu þurfa að flytja síst líklega til að samþykkja það.
Seidermann segir þá sem munu þurfa að flytja síst líklega til að samþykkja það. epa/Atef Safadi

Hin svokallaða „tveggja ríkja lausn“ myndi kalla á brottflutning um 200 þúsund landnema á Vesturbakkanum, segir lögfræðingur í Ísrael sem hefur verið utanríkisráðherra Bretlands til ráðgjafar.

Að sögn Daniel Seidermann verða stjórnvöld í Ísrael að sýna vilja til að flytja um 200 þúsund landnema til Ísraels, til að halda lífi í hugmyndinni um sjálfstæð ríki Ísrael og Palestínu hlið við hlið. 

„Ef þú getur lagt undir þig land í smáum skrefum getur þú látið það af höndum í smáum skrefum,“ segir Seidermann í samtali við Guardian

Hvort hugmyndin sé raunhæf sé annað mál.

David Cameron, nýskipaður utanríkisráðherra Bretlands, hefur oftsinnis leitað til Seidermann hvað varðar málefni Ísrael og Palestínu. 

Seidermann segir um hálfa milljón landnema búa á svæðum þar sem jarðaskipti gætu átt sér stað milli Ísraels og Palestínu. Vandamálið væri hins vegar að þeir sem þyrftu að flytja væru þeir sem væru síst líklegir til að vilja það; harðlínumenn sem byggju í einangruðum landnemabyggðum.

Lögmaðurinn telur Benjamin Netanyahu forsætisráðherra búinn að vera, hann njóti ekki lengur trausts en hvað taki við sé erfiðara að sjá fyrir sér. Ný forysta Ísraels muni líklega koma innan úr hernum og þar séu flestir fylgjandi tveggja ríkja lausn.

Pólitískt samkomulag um tveggja ríkja lausn sé ekki í sjónmáli. „En þú ferð ekki neitt án þess að vita hvert þú ert að fara. Það er enginn morgundagur án Pólstjörnu,“ segir Seidermann.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×