Erlent

Banda­rískt her­skip skaut niður fjór­tán dróna Húta

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Bandaríska herskipið USS Carney sem staðsett hefur verið á Rauðahafi undanfarna daga.
Bandaríska herskipið USS Carney sem staðsett hefur verið á Rauðahafi undanfarna daga. AP

Bandarískt herskip skaut fjórtán dróna niður yfir Rauðahafi í dag. Auk þess skaut breskt herskip dróna niður sem miðað var á vöruflutningaskip. Um er að ræða umfangsmikla en misheppnaða árás Húta í Jemen en flaugunum var skotið frá yfirráðasvæði þeirra. 

 Leiðtogar Húta í tilkynntu í síðustu viku að skotið yrði á öll skip sem siglt er um Rauðahaf til Ísraels, nema þeim verði einnig siglt til Palestínu með neyðaraðstoð handa íbúum þar.

Síðan þá hefur norskt tankskip orðið fyrir eldflaug Húta auk líberísks flutningaskips. Herskip frá Bandaríkjunum og Frakklandi eru á svæðinu og hafa skotið niður þó nokkra dróna og eldflaugar. Þá var breska herskipið HMS Diamond sent á svæðið fyrir tveimur vikum til að berjast gegn árásum Húta á skip sem eiga leið um Rauðahafið. 

Alþjóðlegum viðskiptum ógnað

Varnarmálayfirvöld í Bandaríkjunum tilkynntu á X í dag að snemma í morgun hafi herskip þeirra, sem er starfandi á Rauðahafi, skotið niður fjórtán dróna sem skotið var frá yfirráðasvæði Húta í Jemen.

Drónunum var skotið niður án þess að skemmdir urðu á skipum á svæðinu eða meiðsli á fólki, samkvæmt upplýsingum frá Centcom. 

Fréttaveitan AP hefur eftir Grant Shapps varnarmálaráðherra Bretlands að herskip þeirra, HMS Diamond, hafi skotið niður dróna sem hafði verið miðað á flutningaskip. Þetta hafi verið í fyrsta skipti sem konunglegi sjóherinn í Bretlandi skaut niður dróna síðan í Persaflóastríðinu árið 1991. 

Shapps segir árásir Húta í Jemen á flutningaskip í Rauðahafinu ógna alþjóðlegum viðskiptum og siglingaöryggi. „Bretland er enn staðráðið í að berjast gegn þessum árásum til að vernda frjálst flæði alþjóðlegra viðskipta,“ sagði hann í yfirlýsingu. 

Rauðahafið er ein fjölfarnasta siglingaleið heims. Þar hafa Hútar á undanförnum vikum skotið eldflaugum og flogið sjálfsprengidrónum að nokkrum flutningaskipum, en að auki bandarískum og frönskum herskipum. Hútar hafa einnig sent sérsveitarmenn til að taka stjórn á einu skipi sem siglt var til hafnar í Jemen.

Til að komast inn í Rauðahaf úr suðri og þaðan gegnum Súes-skurðinn til inn á Miðjarðarhafið þarf að sigla skipum um Aden-flóa og Bab al-Mandab-sund. Skipin fara því mjög nærri ströndum Jemen og yfirráðasvæði Húta. 

Uppfært: Áður sagði að bandaríska herskipið hefði skotið niður eldflaugar en í raun voru drónar skotnir niður.


Tengdar fréttir

Enn eitt skipið fyrir eldflaug á Rauðahafi

Enn eitt flutningaskipið varð fyrir eldflaug á Rauðahafi í gærkvöldi. Eldflauginni mun hafa verið skotið frá yfirráðasvæði Húta í Jemen, eins og öðrum eldflaugum, en eldur kom upp í skipinu þegar eldflaugin hæfði það.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×