Innlent

Eldur kviknaði í bíl um borð í Baldri

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Atvikið átti sér stað að nýlokinni björgunaræfingu í gær.
Atvikið átti sér stað að nýlokinni björgunaræfingu í gær. Ívar Fannar Arnarsson

Eldur kviknaði í bíl um borð í Breiðafjarðarferjunni Baldri á meðan björgunaræfingu stóð. Ferjan var þó ekki á siglingu og ekkert tjón varð á fólki eða skipinu.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vegagerðinni. Björgunaræfingin var haldin í gær að viðstöddum hópi nemenda Grunnskólans á Stykkishólmi og kennurum þeirra. Einnig voru viðstaddir fulltrúar frá öryggisdeild Eimskips, Samgöngustofu, Landsbjörgu og Survitec, fyrirtækinu sem þjónustar björgunarbúnaðinn. Alls voru 78 manns viðstaddir æfinguna, ýmist sem þátttakendur eða eftirlitsaðilar.

Bíllinn ónýtur

Fram kemur að æfingin hafi gengið vel þrátt fyrir slæmt veður. Það var mikill vindur og snjókoma á köflum. Tekið er sérstaklega fram að nemendur grunnskólans hafi staðið sig með prýði í erfiðum aðstæðum og virtust ekki hafa látið kuldann á sig fá.

Bíllinn sem eldurinn kom upp í var kyrrstæður á bílaþilfarinu og er í eigu starfsmanns Sæferða. Eldurinn var slökktur og lögregla kom á vettvang stuttu síðar. Fljót viðbrögð áhafnarinnar komu í veg fyrir að slys urðu á fólki eða að skipið varð fyrir tjóni en bíllinn er þó ónýtur.

„Ef horft er á jákvæðu hliðarnar á þessari óvæntu uppákomu er ánægjulegt að allar viðbragðsáætlanir og brunavarnir hafi virkað sem skyldi,“ segir í lok tilkynningarinnar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×