Fótbolti

Barcelona fór illa með sænsku meistarana

Smári Jökull Jónsson skrifar
Guðrún Arnardóttir í leik með FC Rosengård.
Guðrún Arnardóttir í leik með FC Rosengård. Vísir/Getty

Guðrún Arnardóttir og stöllur hennar í FC Rosengård sóttu ekki gull í greipar Evrópumeistara Barcelona þegar liðin mættust í Meistaradeildinni í Malmö í kvöld.

Fyrir leikinn á Malmö Idrottspark í kvöld hafði Barcelona unnið sigur í báðum sínum leikjum í riðlinum til þessa en Rosengård tapað sínum tveimur leikjum. Barcelona eru ríkjandi Evrópumeistarar en liðið vann sigur á Sveindísi Jane Jónsdóttur og liðsfélögum hennar í Wolfsborg í úrslitaleik í vor.

Leikurinn í Malmö í kvöld var lítið spennandi. Barcelona var komið í 3-0 strax í fyrri hálfleik eftir mörk frá Salma Paralluelo og Patricia Guijarro. Lið Rosengård skoraði þar að auki eitt sjálfsmark.

Aitana Bonmati bætti fjórða markinu við í upphafi síðari hálfleiks og fimmta markið kom á 73. mínútu þegar Mariona Caldentey skoraði. Í uppbótartíma fullkomnaði Barcelona síðan frábæran leik þegar Martina Fernandez skoraði og innsiglaði 6-0 sigur. 

6-0 urðu lokatölur leiksins og Barcelona því áfram með fullt hús stiga í riðlinum en Rosengård án stiga.

Guðrún Arnardóttir lék allan leikinn í miðri vörn sænska liðsins í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×