Fótbolti

Þyngri byrðar á herðum Guð­rúnar gegn Barcelona

Sindri Sverrisson skrifar
Guðrún Arnardóttir er í lykilhlutverki hjá Rosengård sem spilar í Meistaradeild Evrópu.
Guðrún Arnardóttir er í lykilhlutverki hjá Rosengård sem spilar í Meistaradeild Evrópu. Getty/Gualter Fatia

Guðrún Arnardóttir, landsliðskona í fótbolta, á fyrir höndum afar krefjandi verkefni í dag með liði sínu Rosengård þegar sjálfir Evrópumeistarar Barcelona mæta í heimsókn til Malmö.

Rosengård hefur átt erfitt uppdráttar í A-riðli Meistaradeildar Evrópu og tapaði 2-1 á heimavelli gegn Frankfurt, og 1-0 á útivelli gegn Benfica. Nú er svo komið að erfiðasta liði riðilsins, og hugsanlega besta félagsliði heims.

Það sem gerir verkefnið enn snúnara fyrir Guðrúnu og hennar liðsfélaga er að mikil meiðslakrísa herjar á Rosengård. Reynsluboltinn og fyrirliðinn Caroline Seger er á meðal þeirra sem missa af leiknum í kvöld en þar að auki eru markvörðurinn Eartha Cumings, Olivia Møller Holdt, Emma Berglund, Jo-Anne Cronqvist og Mai Kadowaki að glíma við meiðsli.

Guðrún lætur þó engan bilbug á sér finna: „Við erum án margra góðra leikmanna og auðvitað væri gott fyrir okkur að hafa alla til taks. En eins og Joel [Kjetselberg, þjálfari Rosengård] hefur sagt þá erum við með stóran og góðan hóp,“ sagði Guðrún og bætti við:

„Margar af þeim sem eru meiddar hafa verið það í dágóðan tíma núna, og við sem höfum verið að spila leikina höfum náð betri tengingu hver við aðra í síðustu leikjum. Þetta hjálpar okkur og ég veit að þær sem spila leikinn munu gefa allt í leikinn til að ná góðri frammistöðu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×