Erlent

Veru­leg fjölgun þeirra sem þurfa að sækja þungunarrof í öðru ríki

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Aðgengi kvenna að þungunarrofi hefur verið takmarkað verulega í Bandaríkjunum í kjölfar ákvörðunar Hæstaréttar.
Aðgengi kvenna að þungunarrofi hefur verið takmarkað verulega í Bandaríkjunum í kjölfar ákvörðunar Hæstaréttar. Getty

Konum sem ferðast milli ríkja í Bandaríkjunum til að gangast undir þungunarrof hefur fjölgað verulega frá því að Hæstiréttur Bandaríkjanna snéri niðurstöðunni í Roe gegn Wade.

Fjöldi ríkja hefur í kjölfarið takmarkað mjög aðgengi kvenna að þungunarrofi.

Árið 2020 leitaði ein af hverjum tíu konum eftir þungunarrofsþjónustu utan síns heimaríkis en á þessu ári var það ein af hverjum fimm. Í Illinois, þar sem þjónustan hefur verið tryggð í stjórnarskrá ríkisins, fjölgaði skjólstæðingum utan ríkis úr 21 prósenti árið 2020 í 42 prósent í ár.

Frá þessu er greint í nýrri skýrslu Guttmacher Institute.

Þungunarrof er nú næstum alfarið bannað í fjórtán ríkjum Bandaríkjanna og þeir sem veita þjónustuna í Illinois hafa til að mynda séð gríðarlega fjölgun skjólstæðinga frá Missouri, Tennessee og Arkansas.

Samkvæmt skýrslu Guttmacher fjölgaði þungunarrofum í Kansas, sem nú þjónar einnig skjólstæðingum frá Texas, um 79 prósent á þessu ári. Meirihluti þeirra sem sóttu þungunarrof í ríkinu bjuggu í öðru ríki.

Guardian fjallar ítarlega um málið og segir þá sem enn veita þjónustuna óttast að geta ekki annað eftirspurninni, eftir því sem fleiri og fleiri ríki þrengja að rétti kvenna til þungunarrofs. Í Flórída eru til að mynda lög í skoðun sem myndu banna þungunarrof eftir sjöttu viku meðgöngu.

Á fyrstu sex mánuðum ársins ferðuðust nærri 4.000 konur til Flórída til að gangast undir þungunarrof. Ef fyrrnefnd lög taka gildi munu bæði konur sem búa í ríkinu og þær sem hafa leitað þangað utan ríkis þurfa að ferðast langt norður eftir til að sækja þjónustuna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×