Innlent

Stjórn VR þurfi að bregðast við ólíðandi fram­göngu

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Árni Guðmundsson, framkvæmdastjóri Gildis lífeyrissjóðs.
Árni Guðmundsson, framkvæmdastjóri Gildis lífeyrissjóðs.

Framkvæmdastjóri Gildis lífeyrissjóðs segir óásættanlegt að formaður VR standi fyrir hávaðasömum mótmælum á vinnustað félagsmanna og væntir þess að stjórn félagsins geri honum grein fyrir því. Hann stendur við það sem fram kemur í bréfinu sem hann sendi.

Formleg kvörtun Gildis lífeyrissjóðs til stjórnar VR vegna mótmæla sem fóru fram á skrifstofu sjóðsins fyrir helgi hefur valdið töluverðu fjaðrafoki en skipuleggjendur hafna því að hafa farið fram með offorsi, líkt og haldið er fram.

Árni Guðmundsson, framkvæmdastjóri Gildis, segir að mótmælin hafi valdið starfsmönnum vanlíðan.

„Starfsmenn upplifðu þetta sem mikla truflun á starfseminni og þeim leið mjög illa þegar hópur fólks kom inn í móttökuna með gjallarhorn í andlitið á til dæmis starfsmönnum í móttöku,“ segir Árni sem ítrekar að starfsmenn séu flestir félagsmenn í VR og að bréfið hafi verið sent með hagsmuni þeirra í huga.

Hann telur að stjórn VR þurfi að bregðast við. „Þannig að þetta endurtaki sig ekki og að formaðurinn fái þau skilaboð að þetta séu ekki ásættanleg vinnubrögð.“

Ragnar Þór segist hafa mótmælt með yfirveguðum hætti og sagði í Bítinu á Bylgjunni í morgun að bréfið mætti kannski rekja til almennrar gagnrýni hans á lífeyrissjóðskerfið.

Árni segir það út í hött. „Þetta erindi okkar hefur ekkert með það að gera. Þetta snýst eingöngu um að verja okkar starfsfólk. Lítandi bæði á starfsreglur og reglur VR, og okkar eigin reglur, að þá er bara ólíðandi að starfsfólk þurfi að upplifa það að hópur fólks komi inn á skrifstofuna með gjallarhorn og hávaða og að þessu stjórni formaður stéttarfélagsins sem það greiðir í,“ segir Árni og bætir við að hann hafi fullan rétt á því að vekja athygli á málinu. 

Takmarkaðar heimildir

Sjóðurinn hafi takmarkaðar heimildir til að bregðast við kröfu mótmælenda.

„Eins og við erum búin að upplýsa þessa aðila ítrekað um, bæði með því að senda opinbera tilkynningu og eins að hafa samband við alla lántakendur sem eru hjá okkur, að þá eru þeir í greiðsluskjóli. Samkvæmt þeim heimildum sem við vinnum eftir getum við ekki fellt niður vexti og verðbætur án þess að hafa heimildir til þess. Þetta mál á eftir að skýrast betur áður en einhver endanleg ákvörðun verður tekin. Þetta er í skoðun og er ekki afgreitt hjá okkur en heimildir okkar til að gera það sem farið er fram á eru bara mjög takmarkaðar,“ segir Árni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×