Fótbolti

Lars með lausnina fyrir Svía: Ráðið Heimi

Sindri Sverrisson skrifar
Lars Lagerbäck og Heimir Hallgrímsson eru góðir vinir eftir að hafa stýrt saman íslenska landsliðinu og komið því í átta liða úrslit EM 2016.
Lars Lagerbäck og Heimir Hallgrímsson eru góðir vinir eftir að hafa stýrt saman íslenska landsliðinu og komið því í átta liða úrslit EM 2016. Getty/Catherine Sleenkeste

Svíar eru í leit að nýjum þjálfara fyrir karlalandslið sitt í fótbolta. Lars Lagerbäck bendir löndum sínum á að tala við sinn gamla samstarfsmann og vin, Eyjamanninn Heimi Hallgrímsson.

Janne Andersson hætti í síðasta mánuði sem landsliðsþjálfari Svía eftir að hafa mistekist algjörlega að koma liðinu á EM 2024. Liðið endaði níu stigum frá því að komast upp úr sínum undanriðli, og þá var árangur þess í Þjóðadeildinni slakari en til að mynda Íslands og því komast Svíar ekki í umspilið í mars.

Lagerbäck þjálfaði Svíþjóð í mörg ár áður en hann tók svo við íslenska landsliðinu með Heimi sér til halds og trausts, með sögulegum árangri. Lagerbäck er ekki í vafa um að Heimir, sem nú stýrir Jamaíku með góðum árangri, sé rétti maðurinn til að taka við Svíum:

„Ein manneskja sem ég þori svo sannarlega að mæla með er Heimir Hallgrímsson,“ sagði Lagerbäck í hlaðvarpsþætti um „krísuna í sænskum fótbolta“.

„Hann [Heimir] lifði af 3-4 ár sem þjálfari í Arabaheiminum [sem þjálfari Al-Arabi í Katar] og það eitt og sér er rós í hnappagatið. Hann kom Íslandi á HM, og nú hefur hann komið Jamaíku nánast af botninum og í undanúrslit í Þjóðadeildinni þar. Það eru áhugaverð nöfn í boði,“ sagði Lagerbäck.

Heimir, sem er 56 ára gamall, tók við landsliði Jamaíku í september í fyrra. Hann er með samning um að stýra liðinu fram yfir heimsmeistaramótið 2026 í von um að Jamaíka komist þangað. Á dögunum kom hann liðinu í undanúrslit Þjóðadeildar Mið- og Norður-Ameríku, og tryggði liðinu um leið sæti í Copa América á næsta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×