Innlent

Urriða­foss virkjaður en Héraðs­vötn vernduð

Kristján Már Unnarsson skrifar
Frá Urriðafossi í Þjórsá.
Frá Urriðafossi í Þjórsá. Vísir/Vilhelm

Þrír virkjunarkostir færast úr biðflokki yfir í nýtingarflokk en tveir úr biðflokki yfir í verndarflokk, samkvæmt tillögudrögum verkefnisstjórnar að rammaáætlun sem kynnt voru í dag.

Spurningin snýst um hvar megi virkja og hvar ekki. Í fréttum Stöðvar 2 var sýnt hvar á landinu þessir virkjunarkostir eru sem fengu endurmat en menn hafa lengi deilt um hvern einasta þeirra.

Einn þeirra er norðanlands, Héraðsvötn í Skagafirði. Tveir eru á hálendinu, Skrokkölduvirkjun neðan Hágöngulóns og Kjalölduveita í Efri-Þjórsá, sem er í raun ekki virkjun heldur snýst um að veita meira af rennsli Þjórsár yfir í Þórisvatn til aflaukningar í virkjunum sem þegar eru til staðar. Tveir eru svo í byggð á Suðurlandi, Holtavirkjun og Urriðafossvirkjun, báðar í Þjórsá.

Verkefnisstjórn rammaáætlunar var áður búin að flokka þá alla ýmist í vernd eða nýtingu. Til að slá á deilur var ákveðið á Alþingi vorið 2022 að setja þá alla fimm í biðflokk og fela verkefnisstjórn að endurmeta kostina.

Í dag voru svo niðurstöður verkefnsstjórnar kynntar í samráðsgátt stjórnvalda, sem drög að tillögu að breyttri rammaáætlun. Þar eru Héraðsvötn og Kjalölduveita sett í verndarflokk, svæði sem lagt er til að verði friðuð gagnvart virkjunum.

Tölvugerð mynd af áhrifasvæði Holtavirkjunar. Á miðri mynd má sjá fyrirhugaða brú yfir Þjórsá.Landsvirkjun

Þrír virkjunarkostir fá hins vegar grænt ljós á nýtingu; Skrokkölduvirkjun, Holtavirkjun og Urriðafossvirkjun. Þetta er í raun sama niðurstaða og verkefnisstjórnin hafði áður komist að.

Tillagan fer núna í umsagnarferli þar sem almenningi gefst kostur á að segja álit sitt. Því næst kemur væntanlega þingsályktunartillaga frá umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. Alþingi hefur svo lokaorðið um hvernig rammaáætlun mun líta út.

Hér má sjá frétt Stöðvar 2:


Tengdar fréttir

Umhverfisráðherra segir raforkuskort í landinu óásættanlegan

Umhverfis- orku- og loftslagsráðherra segir ekki ásættanlegt að fiskimjölsverksmiðjur þurfi ár eftir ár að keyra starfsemi sína á olíu vegna skorts á rafmagni. Það væri einfaldlega komið að skuldadögum eftir fimmtán ára aðgerðaleysi í virkjanamálum.

Olían í bræðslunum þurrkaði upp ávinning rafbílavæðingar

Þriðja veturinn í röð neyðast fiskimjölsverksmiðjur landsins til að brenna olíu vegna raforkuskort. Sú aukna olíunotkun sem af þessu leiddi síðastliðinn vetur þurrkaði upp allan loftslagsávinning af öllum innfluttum rafmagnsbílum frá upphafi.

Ramma­á­ætlun í gegnum þingið í fyrsta skipti í níu ár

Þriðji áfangi rammaáætlunar var samþykktur á Alþingi rétt í þessu. 34 greiddu atkvæði með málinu, sjö greiddu atkvæði á móti því en fimmtán sátu hjá. Einn stjórnarþingmaður, Bjarni Jónsson í Vinstri grænum, greiddi atkvæði gegn áætluninni.

Gera loka­til­raun til að halda Héraðs­vötnum og Kja­l­öldum í vernd

Þingmenn þriggja minnihlutaflokka munu í dag leggja fram breytingartillögu við Rammaáætlun til að reyna að halda stórum virkjanakostum í verndarflokki. Náttúruverndarsinnar munu mótmæla áformum ríkisstjórnarinnar í dag og segja þau gera áratugalanga náttúruverndarbaráttu að engu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×