Innlent

Setja á fót leigu­torg að­eins ætlað Grind­víkingum

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Frá Grindavík.
Frá Grindavík. Vísir/Vilhelm

Stjórnvöld leita nú að leiguhúsnæði fyrir Grindvíkinga sem hafa þurft að yfirgefa heimili sín. Eigendum fasteigna gefst nú kostur á að skrá íbúð sína til leigu á sérstöku leigutorgi sem eingöngu er ætlað Grindvíkingum.

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Stjórnarráðssins að Framkvæmdasýslan-Ríkiseignir, að höfðu samráði við Grindavíkurbæ, fjármála- og efnahagsráðuneytið, forsætisráðuneytið og innviðaráðuneytið, auglýsi nú eftir fasteignum tímabundið til leigu fyrir íbúa Grindavíkur.

Auglýst er eftir lausum íbúðum og sérbýlum til leigu, til að minnsta kosti þriggja mánaða. Eignirnar mega vera með eða án húsbúnaðar, eftir því sem fram kemur á vef FSRE.

„Leitað er að heilum eignum, íbúðum og sérbýli á Suðurnesjum, á höfuðborgarsvæðinu og í nágrannasveitarfélögum. Eignirnar verða í kjölfarið auglýstar til leigu eingöngu fyrir fólk með lögheimili í Grindavík.“

Þá kemur fram að frumvarp innviðaráðherra m sérstakan húsnæðisstuðning vegna náttúruhamfara í Grindavík verði sennilega að lögum í næstu viku. 

„Í því kveður á um stuðning frá 150-252.000 krónur á mánuði til að standa straum af leigugreiðslum. Mun þessi stuðningur skipta miklu varðandi húsnæðisöryggi íbúa Grindavíkur,“ segir í tilkynningunni.

Leigusamningar sem gerðar verði um eignir sem bjóðast fram með þessum hætti, og hafa verið skráðar á sérstakt leigutorg fyrir eignir sem eingöngu bjóðast fólki með lögheimili í Grindavík, verði gerðir á milli eiganda og leigutaka án aðkomu hins opinbera.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×