Innlent

Sex líf­eyris­sjóðir í ó­vissu eftir nýjan dóm

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Kristín Edwald hæstaréttarlögmaður og talskona Lífeyrissjóðs verslunarmanna í málinu.
Kristín Edwald hæstaréttarlögmaður og talskona Lífeyrissjóðs verslunarmanna í málinu. Vísir

Miklar líkur eru á að Lífeyrissjóður verzlunarmanna áfrýi dómi Héraðsdóms Reykjavíkur sem ógilti í gær breytingar á lífeyrisréttindum hjá sjóðnum eftir aldri.  Þetta segir lögmaður sjóðsins. Gríðarlegir hagsmunir eru í húfi fyrir nokkra lífeyrissjóði en nú er verið er að reikna kostnaðinn út yrði þetta endanlega niðurstaða.

Héraðsdómur Reykjavíkur felldi í gær úr gildi breytingar sem voru gerðar hjá Lífeyrissjóði verzlunarmanna í fyrra og fjármála- og efnahagsráðherra staðfesti. 

Breytingarnar sem voru dæmdar ólöglegar fólust í að sjóðurinn var að sögn að bregðast við nýjum dánar- og eftirlifendatöflum þar sem gert er ráð fyrir að sérhver árgangur lifi lengur en árgangurinn á undan. Sjóðurinn taldi sér skylt að taka mið af þessu og lækkaði áunnin réttindi sjóðfélaga mismikið eftir aldri. Þannig var greiðslum dreift yfir lengra tímabil hjá yngri kynslóðum en þeim eldri því sjóðurinn gerir ráð fyrir að þær yngri lifi lengur en þær eldri. 

Aðrir lífeyrissjóðir sem gerðu sambærilegar breytingar eru Gildi lífeyrissjóður, Almenni lífeyrissjóðurinn, Eftirlaunasjóður atvinnuflugmanna, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins í A-deild og SL lífeyrissjóður. Eins og áður sagði hafa breytingarnar sem sjóðirnir gerðu nú verið dæmdar ólögmætar.

Kristín Edwald hæstaréttarlögmaður hjá Lex og talsmaður Lífeyrissjóðs verzlunarmanna telur miklar líkur á að dómnum verði áfrýjað.

„Lífeyrissjóðurinn telur að þarna hafi verið gerðar sanngjarnar breytingar og þær hafi rúmast innan lagaheimilda. Sjóðurinn hafi með þeim verið að bregðast við nýjum töflum sem geri ráð fyrir því að yngri kynslóðir lifi lengur en þær eldri. Með breytingunum hafi sjóðurinn haft í forgrunni þau skilyrði sem honum ber að uppfylla þar sem gætt sé að jafnræði milli kynslóða,“ segir Kristín.  

Hún segir að verið sé að reikna út hvað það myndi kosta sjóðinn ef dómur héraðsdóms verður að veruleika. Kristín bendir jafnframt á að mánaðarlegar skerðingar sem hafi orðið hjá einstaklingum vegna breytingana hafi í langflestum tilfellum verið óverulegar eða milli nokkur hundruð króna og upp í nokkur þúsund. Það sé þó fljótt að verða háar upphæðir hjá sjóðnum í heild þegar um þúsundir einstaklinga sé að ræða. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×