Fótbolti

Rodrygo segir Real Madrid banna honum að ræða rifrildið við Messi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi og Rodrygo rifust aðeins fyrir leikinn.
Lionel Messi og Rodrygo rifust aðeins fyrir leikinn. Getty/Buda Mendes

Brasilíski knattspyrnumaðurinn Rodrygo segir að Real Madrid hafi þvertekið fyrir það að hann ræði uppákomu í leik Brasilíu og Argentínu í síðasta landsliðsglugga.

Argentína sótti þá 1-0 sigur á Maracana leikvanginn í Ríó þar sem Nicolas Otamendi skoraði eina mark leiksins.

Mikið gekk á fyrir leik þegar lögreglan gekk hart fram í að bæla niður ólæti í stuðningsmönnum argentínska liðsins. Argentínska liðið gekk af velli eftir þjóðsöngvana til að reyna að róa hlutina og leiknum seinkaði um hálftíma.

Eftir að argentínska liðið kom úr klefanum þá lenti hinum 22 ára gamla leikmanni Real Madrid saman við Lionel Messi.

Samkvæmt fréttum að utan þá sagði Rodrygo við Messi: „Þið hegðið ykkur eins og hugleysingjar, viljið þið ekki spila leikinn?“

Messi á að hafa svarað: „Við erum heimsmeistarar, hvernig erum við hugleysingjar? Passaðu hvað þú segir.“

Rodrygo og Messi hættu fljótlega rifrildinu og leikurinn fór í gang.

Rodrygo var spurður út í atvikið af blaðamönnum í vikunni.

„Ég get ekki talað um þetta atvik. Real Madrid leyfir mér það ekki,“ sagði Rodrygo en Marca segir frá.

Rodrygo hefur nú skorað í þremur síðustu leikjum Real í Meistaradeildinni og alls átta mörk í öllum keppnum á tímabilinu. Hann er með fimm mörk og fjórar stoðsendingar í fjórtán leikjum í spænsku deildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×