Fótbolti

Vallarstjóranum kennt um tap í lykilleik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það hefur verið mjög kalt í Noregu síðustu daga og það er að gera vallarstjórum erfitt fyrir nú þegar liðin eru að keppa um laus sæti í efstu deild.
Það hefur verið mjög kalt í Noregu síðustu daga og það er að gera vallarstjórum erfitt fyrir nú þegar liðin eru að keppa um laus sæti í efstu deild. Getty

Það eru ekki aðeins krefjandi aðstæður í Laugardalnum þegar kemur að því að halda fótboltavöllum spilhæfum inn í veturinn.

Úrslitakeppnin í norska fótboltanum hófst um helgina en þar er verið að keppa um laust sæti í efstu deild. Fyrsti leikurinn fór þó aldrei fram vegna slæmra vallaraðstæðna.

Start átti þá að fá Bryne í heimsókn en leikurinn komst í heimsfréttirnar í síðustu viku eftir að Erling Haaland, framherji Manchester City, bauðst til að borga ferðakostnaðinn fyrir stuðningsmenn æskufélagsins síns Bryne.

Þegar á hólminn var komið á laugardaginn þá var ekki hægt að spila á vellinum í Start og leiknum því aflýst. Norska knattspyrnusambandið ákvað síðan að ábyrgðin lægi hjá Start og dæmdi því Bryne sigurinn.

Ástæðan er að vallarstjórinn hjá Start gerði ekki nauðsynlegar ráðstafanir til að hafa völlinn í leikhæfu ástandi. Það eru vissulega erfiðar vetraraðstæður í Noregi en tapið skrifast samt á vallarstjórann.

Næst á dagskrá hjá Bryne liðinu er leikur í undanúrslitunum á móti Kristiansund en leikurinn á að fara á heimavelli Kristiansund.

Vegna kuldans í Noregi og vandamála með upphitun vallarins í Kristiansund þá lítur út fyrir að leikurinn verði færður til Ålesund. Lokaákvörðun verður tekin í kvöld.

Vallarstjórinn í Kristiansund hefur verið að reyna að salta völlinn en þótt að hitakerfi sé undir vellinum þá er það eitthvað bilað á hluta vallarins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×