Erlent

Stærsti og elsti ís­jaki heims á ferðinni

Samúel Karl Ólason skrifar
Ísjakinn A23a hefur setið fastur í rúma þrjá áratugi en virðist nú laus.
Ísjakinn A23a hefur setið fastur í rúma þrjá áratugi en virðist nú laus. AP/Maxar Technologies

Einn stærsti ísjaki heimsins og jafnvel sá elsti er á ferðinni í fyrsta sinn í rúma þrjá áratugi. Ísjakinn sem kallast A23a brotnaði frá Fichner-Ronne íshellunni árið 1986 en festist við botninn í Weddell-hafi.

Um tíma var sovésk rannsóknarstöð á ísjakanum.

Ísjakinn er um fjögur þúsund ferkílómetrar að stærð, sem samsvarar rúmlega hálfum Vatnajökli, sem er um 7.00 ferkílómetrar. Hann er talinn vera um billjón tonn að þyngd.

Nú er A23a hinsvegar aftur laus og kominn á nokkurn hraða. Breskur vísindamaður sagði í viðtali við Reuters að fylgst væri náið með ísjakanum og að sjaldgæft væri að sjá svo stóra ísjaka á ferðinni.

Að endingu er talið að ísjakinn muni hljóta sömu örlög og aðrir minni ísjakar sem brotna frá Suðurskautinu. Hann muni fljóta norður á bóginn þar til hafstraumarnir kringum Suðurskautið grípa hann og flytja hann norður á bóginn, þar sem ísjakinn mun bráðna.

Talið er mögulegt að ísjakinn muni stranda við Suður-Georgíueyju en það gæti ógnað lífum milljóna sela, mörgæsa og fugla sem nota eyjuna og nærliggjandi sjó til að fjölga sér og afla sér fæðu.

Oliver Marsh frá samtökunum Britich Antarctic Survey segir af sjaldgæft að svo stórir ísjakar hreyfist mikið. Þá sé óljóst af hverju A23a sé á ferðinni núna, eftir að hafa verið hreyfingarlaus í rúm þrjátíu ár. Líklegt sé að ísjakinn hafi lést og þannig losnað af sjávarbotninum.

Hann segir mögulegt að ísjakinn muni brotna upp í smærri hluta, sem eru sömu örlög og annar risastór ísjaki hlaut árið 2020. Gerist það ekki gæti A23a rekið langt norður á bóginn og allt að ströndum Suður-Afríku.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×