Innlent

„Gott að geta leyst flókin og erfið mál í góðri sátt“

Jón Þór Stefánsson og Heimir Már Pétursson skrifa
Eftir að málið kom upp hafa ítrekaðar tilraunir verið gerðar til að hylja andlit séra Friðriks Friðrikssonar á styttunni.
Eftir að málið kom upp hafa ítrekaðar tilraunir verið gerðar til að hylja andlit séra Friðriks Friðrikssonar á styttunni. Vísir/Vilhelm

Borgarráð Reykjavíkur samþykkti í dag að fjarlægja styttu af séra Friðriki Friðrikssyni af Lækjargötu og koma henni fyrir í listaverkageymslum Listasafns Reykjavíkur. Einar Þorsteinsson, formaður borgarráðs, segir ánægjulegt að leysa málið í góðri sátt.

„Þegar svona stytta, sem er sett upp til að senda ákveðin skilaboð út í samfélagið, fær nýja merkingu og sendir ný skilaboð út í samfélagið þá er ekki óeðlilegt að gera breytingar. Það gerðum við í dag og það var einróma samþykkt. Það er gott að geta leyst flókin og erfið mál í góðri sátt.“

Einar segir ástæðuna fyrir því að styttan sé tekin niður vera bók bók Guðmundar Magnússonar sagnfræðings um að séra Friðrik.

„Það var náttúrulega þessi bók sem varpaði nýju ljósi á líf Friðriks. Það skapaðist mikil umræða um hana. Við ákváðum að fara ekki of hratt inn í þetta mál og óskuðum eftir fundi með KFUM og K. Þau komu inn á fund borgarráðs fyrir nokkrum vikum og þar áttum við mjög einlægt og gott samtal um stöðuna sem var komin upp.“

Aðspurður um hvort syttan af séra Friðriki verði látin dúsa í lokaðri geymslu að eilífu „Hún fer allavega inn í geymslu fljótlega, og það er kannski annara að taka ákvörðun um það,“ segir Einar, sem getur ekki svarað því hvenær styttan verði fjarlægð, það sé verkfræðilegt úrlausnarefni.

Að mati Einars er stóra spurningin nú hvað eigi að koma í stað styttunnar, sjálfur leggur hann til eitthvað sem höfði til barna. Umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkurborgar vinnur nú að því að setja fram nýja tillögu um það.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×