Innlent

Þungt haldinn eftir stunguárás á Litla-Hrauni

Lovísa Arnardóttir og Árni Sæberg skrifa
Fangelsið á Litla-Hrauni. 
Fangelsið á Litla-Hrauni.  Vísir/Vilhelm

Lögreglan var kölluð út í fangelsið Litla-Hrauni vegna atviks sem þar átti sér stað í dag um tvöleytið. Einn var fluttur á sjúkrahús eftir líkamsárás. Samkvæmt heimildum Vísis var eggvopni beitt og sá sem fyrir árásinni varð er þungt haldinn. Lögregla segir rannsókn á árásinni á frumstigi.

Áður hafði Vísir fengið staðfest hjá Páli Winkel, fangelsismálastjóra að lögregla væri stödd í Litla-Hrauni  vegna atviks sem þar átti sér stað fyrr í dag. 

„Ég get ekki tjáð mig um þetta strax. Lögregla er á vettvangi vegna atviks á Litla-Hrauni sem er verið að bregðast við. En við getum ekki gefið upp frekari upplýsingar,“ sagði Páll Winkel fangelsismálastjóri fyrr í dag.

Hann segir að ákveðið ferli eigi sér stað innan veggja fangelsisins þegar slíkar árásir verði. Föngum sé boðin þjónusta sálfræðinga og öflug félagastuðning. 

Rannsókn á frumstigi

Jón Gunn­ar Þórólfs­son, aðstoðar­yf­ir­lög­regluþjónn á Suður­landi, sagði í samtali við Vísi fyrr í dag að um líkamsárás hafi verið að ræða og einn hafi verið fluttur á spítala. Hann búi ekki yfir upplýsingum um líðan hans.

Hann sagði að tilkynning verði send út vegna málsins síðar í dag og að hann geti ekki tjáð sig um atvikið að öðru leyti en að það hafi átt sér stað á milli 13 og 14 í dag.

Í tilkynningu á vef lögreglu segir að lögreglu hafi borist tilkynning um að fangi hefði orðið fyrir alvarlegri líkamsárás á Litla-Hrauni. Var sá sem fyrir árásinni varð fluttur með sjúkrabíl á spítala. Þá segir lögregla að rannsókn málsins sé á frumstigi og að frekari upplýsingar verði ekki veittar að sinni.

Fréttin hefur verið uppfærð með tilkynningu lögreglu og ummælum fangelsistjóra um verklag innan fangelsis.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×