Innlent

Grunn­skóla­nemi féll niður af svölum í Ás­garði

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Drengurinn fótbrotnaði eftir fallið af svölunum í íþróttahúsinu Ásgarði. 
Drengurinn fótbrotnaði eftir fallið af svölunum í íþróttahúsinu Ásgarði.  Vísir/Vilhelm

Nemandi í Garðaskóla í Garðabæ féll niður af svölum inni í íþróttahúsinu Ásgarði í dag með þeim afleiðingum að hann fótbrotnaði. Lögreglan hefur málið til skoðunar. 

Skúli Jónsson, stöðvarstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, staðfestir í samtali við Vísi að lögregla hafi fengið tilkynningu um málið um eitt leytið í dag. Nemandinn hafi reynst fótbrotinn og var hann fluttur til aðhlynningar á slysadeild með sjúkrabíl. Lögregla hafi það til skoðunar hvernig fall barnsins bar að. 

Jóhann Skagfjörð Magnússon, skólastjóri Garðaskóla segir í samtali við fréttastofu að hann geti ekki tjáð sig opinberlega um mál barnungra nemenda skólans. Hann benti þess í stað á Ástu Sigrúnu Magnúsdóttur, upplýsingafulltrúa Garðabæjar vegna málsins. Hún sagðist ekki geta tjáð sig um málið, þar sem um væri að ræða mál barna.

Í tölvupósti sem sendur var til foreldra barna í skólanum í dag og fréttastofa hefur undir höndum var sagt að barn í skólanum hefði slasast á afmælishátíð í skólanum í dag. Líðan barnsins væri eftir atvikum. 

Eðli málsins samkvæmt gætu skólayfirvöld ekki upplýst frekar um aðdraganda slyssins. Þá segir í tölvupóstinum að margir nemendur hafi orðið vitni að atburðinum. Foreldrar eru minntir á að námsráðgjafar, kennarar og stjórnendur séu tilbúnir að ræða við nemendur sem þurfi stuðning.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×