Fótbolti

Elísa­bet ekki eini Ís­lendingurinn sem hættir hjá Kristianstad

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Emelía Óskarsdóttir hefur spilað sinn síðasta leik fyrir Kristianstad.
Emelía Óskarsdóttir hefur spilað sinn síðasta leik fyrir Kristianstad. @kristianstadsdff

Miklar breytingar eru í gangi hjá Íslendingaliðinu Kristianstad í Svíþjóð og Íslendingum fækkar mikið hjá félaginu á milli tímabila.

Áður hafði komið fram að Elísabet Gunnarsdóttir er hætt sem þjálfari liðsins eftir fimmtán ára starf.

Í dag tilkynnti Kristianstad síðan að félagið væri að kveðja nokkra leikmenn.

Meðal þeirra leikmanna sem eru á förum er íslenska unglingalandsliðskonan Emelía Óskarsdóttir. Emelía kom til Kristianstad fyrir 2022 tímabilið og hefur spilað 24 deildarleiki með liðinu.

Emelía fór á láni til Selfoss í sumar en fékk að spila hjá Elísabetu þegar hún kom til baka.

Hlín Eiríksdóttir gæti líka verið á förum ef marka má sögusagnir en lið úr sterkri deildum eru sögð hafa áhuga á íslensku landsliðskonunni. Fari hún verða allir Íslendingarnir farnir frá félaginu sem hefur verið með Íslending innan sinna raða í einn og hálfan áratug.

Það eru ekki bara íslenskir leikmenn og þjálfari sem er að yfirgefa félagið.

Styrktarþjálfarinn Guðrún „Dúna" Sturlaugsdóttir kom til félagsins fyrir síðasta tímabil en Kristianstad tilkynnti í dag að hún væri líka á förum frá sænska liðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×