Fótbolti

Grikkir tóku stig af Frökkum og Tyrkir tóku topp­sætið

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Tyrkir nældu í stig gegn Wales og tryggðu sér toppsæti D-riðils.
Tyrkir nældu í stig gegn Wales og tryggðu sér toppsæti D-riðils. Ryan Pierse/Getty Images

Alls fóru sjö leikir fram í undankeppni EM í kvöld er riðlakeppninni lauk áður en umspil tekur við í vor. Úrslitin voru þegar ráðin í flestum riðlum, en þrátt fyrir það var boðið upp á nokkur áhugaverð úrslit.

Grikkir og Frakkar gerðu til að mynda 2-2 jafntefli í leik þar sem Randal Kolo Muani kom Frökkum yfir stuttu fyrir hálfleikshlé áður en Anastasios Bakasetas og Fotis Ioannidis komu Grikkjum yfir með mörkum snemma í síðari hálfleik. Youssouf Fofana jafnaði þó metin fyrir franska liðið þegar um tuttugu mínútur voru til leiksloka og þar við sat.

Niðurstaðan því 2-2 jafntefli Frakkar enda með 22 stig á toppi B-riðils, en Grikkir enda í þriðja sæti með 13 stig.

Í D-riðli tryggðu Tyrkir sér svo efsta sæti riðilsins með því að næla í 1-1 jefntefli gegn Wales. Neco Williams kom Walesverjum yfir strax á sjöundu mínútu áður en varamaðurinn Yusuf Yazici jafnaði metin fyrir Tyrkland með marki úr vítaspyrnu á 70. mínútu.

Tyrkir tryggðu sér þar með efsta sæti riðilsins á kostnað Króata sem enda í öðru sæti með 16 stig, einu stigi minna en Tyrkir. Wales endar hins vegar í þriðja sæti með 12 stig.

Úrslit kvöldsins

B-riðill

Gíbraltar 0-6 Holland

Grikkland 2-2 Frakkland

D-riðill

Króatía 1-0 Armenía

Wales 1-1 Tyrkland

I-riðill

Andorra 0-2 Ísrael

Kósovó 0-1 Hvíta-Rússland

Rúmenía 1-0 Sviss




Fleiri fréttir

Sjá meira


×