Fótbolti

Hætti mínútum eftir að hafa komið Tékkum á EM og Ís­landi í um­spilið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jaroslav Silhavy kom Tékkum á EM en mun samt ekki stýra liðinu þar.
Jaroslav Silhavy kom Tékkum á EM en mun samt ekki stýra liðinu þar. Getty/Mateusz Slodkowski

Tékkar tryggðu sér sæti á Evrópumótinu í fótbolta í gærkvöldi og það ætti að vera rík ástæða þar á bæ til að fagna þessum góða árangri. Þjálfari tékkneska liðsins ákvað hins vegar að hætta með liðið strax eftir leik.

Íslendingar fögnuðu líka 3-0 sigri Tékka á Moldóvu í gær því eftir hann varð ljóst að íslensku strákarnir verða með í umspilinu í mars og eiga því enn möguleika á því að komast á Evrópumótið.

Jaroslav Silhavy mun hins vegar ekki stýra tékkneska landsliðinu á EM í Þýskalandi næsta sumar.

Aðeins nokkrum mínútum eftir sigurinn í gærkvöldi þá tilkynnti hann það að hann væri hættur þjálfun liðsins eftir fimm ár í starfi. Flestir hefðu hætt eftir Evrópumótið þegar þeir væru á annað borð búnir að koma liði sínu þangað en svo er ekki hjá Silhavy.

Hinn 62 ára gamli Silhavy tók við liðinu í september 2018 og undir hans stjórn fór tékkneska liðið alla leið í átta liða úrslitin á síðasta Evrópumóti.

„Þótt að ég sé auðvitað ánægður núna þá höfðum við tekið þá ákvörðun fyrir leikinn að ég myndi hætta,“ sagði Silhavy eftir leik.

„Ég lét Petr Fouska forseta (tékkneska sambandsins) vita. Pressan var gríðarleg og stundum skildi ég hana ekki. Það hafði áhrif á mína ákvörðun,“ sagði Silhavy.

Undir stjórn Silhavy þá unnu Tékkar 26 af 56 leikjum en 20 leikir töpuðust.

„Þetta snýst ekki bara um mig. Ég er samt sannfærður um að við höfum klárað okkar vinnu og ég skil eftir mig góð úrslit,“ sagði Silhavy.

Sólarhring fyrir leikinn mikilvæga á mánudagskvöldið þá rak Silvhavy þrjá leikmenn úr tékkneska hópnum fyrir agabrot en einn af þeim var Vladimir Coufal hjá West Ham. Félagarnir þrír skelltu sér á næturklúbb í miðju landsliðsverkefni.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.