Fótbolti

Meistara­liðið tapaði í loka­um­ferðinni

Smári Jökull Jónsson skrifar
Fyrirliðinn Ingibjörg með titilinn sem Vålerenga tryggði sér um síðustu helgi.
Fyrirliðinn Ingibjörg með titilinn sem Vålerenga tryggði sér um síðustu helgi. @VIFDamer

Nýkrýndir Noregsmeistarar Vålerenga töpuðu fyrir Rosenborg í lokaumferð norsku úrvalsdeildarinnar í dag.

Ingibjörg Sigurðardóttir er fyrirliði Vålerenga sem varð meistari um síðustu helgi eftir að ljóst var að Rosenborg hafði ekki unnið sigur í sínum leik.

Rosenborg var einmitt liðið sem Vålerenga mætti í dag. Það sem flestir bjuggust við að yrði hreinn úrslitaleikur um titilinn varð að leik sem skipti aðeins máli fyrir Rosenborg sem þurfti stig eða sigur til að tryggja sér annað sætið og þar með Evrópusæti á næstu leiktíð.

Ingibjörg var á sínum stað í byrjunarliði Vålerenga í dag en Selma Sól Magnúsdóttir byrjaði leikinn á bekknum hjá Rosenborg en kom inná á lokamínútu leiksins. 

Staðan í hálfleik var 0-0 en Rosenborg gerði út um leikinn með þremur mörkum á níu mínútna kafla um miðjan síðari hálfleikinn. Þar með tryggði liðið sér sæti í undankeppni Meistaradeildarinnar á næstu leiktíð. 

Natasha Anasi-Erlingsson var í byrjunarliði Brann sem gerði 2-2 jafntefli við LSK á heimavelli. LSK var í baráttu við Rosenborg um 2. sæti deildarinnar fyrir leikinn og þurfti að vinna sigur á Brann sem var í 4. sætinu auk þess að treysta á að Rosenborg tapaði stigum.

LSK komst í 1-0 á annari mínútu leiksins en Brann var búið að snúa leiknum sér í við og komið í 2-1 tæpum tuttugu mínútum síðar. Liði LSK tókst að jafna metin á lokamínútunum en það dugði ekki til þar sem Rosenborg vann sinn leik örugglega. Lokatölur 2-2 og Natasha og stöllur hennar ljúka keppni í 4. sæti en LSK sæti ofar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×