Fótbolti

Úrúgvæ fyrst til að vinna Argentínu­ eftir heims­meistara­titilinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi svekkir sig í tapi Argentínu í nótt.
Lionel Messi svekkir sig í tapi Argentínu í nótt. Getty/Marcos Brindicci

Úrúgvæ sótti tvö stig til Buenos Aires í Argentínu í nótt í leik þjóðanna í undankeppni HM 2026. Þetta er fyrsti tapleikur argentínska landsliðsins síðan að liðið tryggði sér heimsmeistaratitilinn í Katar í lok síðasta árs.

Leikurinn fór fram á hinum heimsfræga Bombonera-leikvangi en það dugði ekki Argentínumönnum að vera á heimavelli. Úrúgvæska liðið var betra liðið frá byrjun og vann leikinn 2-0 með mörkum frá Ronald Araújo og Liverpool-manninum Darwin Núnez.

Argentínska landsliðið er enn á toppi riðilsins með tólf stig af fimmtán mögulegum en Úrúgvæ situr nú í öðru sætinu, tveimur stigum á eftir.

Lionel Messi var í liði Argentínu en hann hafði ekki spilað fótboltaleik í 25 daga eða eftir að keppnistímabilinu lauk í Bandaríkjunum.

„Þeir eru með lið sem spilar af miklum ákafa og það var erfitt fyrir okkur að spila okkar leik. Þeir eru með fljóta og grimma leikmenn á miðjunni. Okkur leið aldrei vel og gekk illa að halda boltanum í einhvern tíma. Leikurinn var hraður og við spiluðum á tempói sem hentar okkur ekki,“ sagði Lionel Messi eftir leikinn.

Messi hrósaði Marcelo Bielsa sem er nýtekinn við úrúgvæska landsliðinu. „Þú sérð handbragð Bielsa á því hvernig Úrúgvæ spilar. Í öllum liðum hans, félagsliðum og landsliðum, þá er hans stíll auðþekkjanlegur. Hann er líka að vinna með góða kynslóð leikmanna í Úrúgvæ,“ sagði Messi.

Messi tókst ekki að skora en hann var búinn að skora í níu byrjunarliðsleikjum í röð. Honum tókst síðast ekki að skora í leik sem hann byrjaði þegar Argentína mætti Póllandi á HM í Katar 30. nóvember 2022.

„Þetta tap er próf fyrir okkur. Þetta gat alltaf gerst en nú þurftum við að standa upp aftur og reyna að spila okkar besta leik í Brasilíu í næstu viku,“ sagði Messi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×