Fótbolti

Hákon til­nefndur sem mark­vörður ársins

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hákon Rafn Valdimarsson hefur átt frábæru gengi að fagna með Elfsborg á tímabilinu.
Hákon Rafn Valdimarsson hefur átt frábæru gengi að fagna með Elfsborg á tímabilinu. getty/Alex Nicodim

Hákon Rafn Valdimarsson er tilnefndur sem besti markvörður sænsku úrvalsdeildarinnar. Hann leikur með Elfsborg sem getur orðið sænskur meistari um helgina.

Hákon hefur átt frábært tímabil í marki Elfsborg sem er á toppi sænsku úrvalsdeildarinnar, þremur stigum meira en Malmö. Liðin mætast einmitt í hreinum úrslitaleik um sænska meistaratitilinn á sunnudaginn.

Hákon hefur haldið marki sínu þrettán sinnum hreinu á tímabilinu, oftast af öllum markvörðum sænsku úrvalsdeildarinnar.

Seltirningurinn er tilnefndur sem besti markvörður sænsku úrvalsdeildarinnar en tilnefningarnar voru gefnar út í dag. Johan Larsson og Gustaf Lagerbielke eru tilnefndir sem varnarmaður ársins, Jimmy Thelin sem þjálfari ársins og Jeppe Okkels sem framherji og leikmaður ársins.

Elfsborg hefði getað tryggt sér sænska meistaratitilinn um síðustu helgi en gerði jafntefli við Dagerfors. Þrátt fyrir það er engan bilbug á Hákoni að finna.

„Það er auð­vitað svekkjandi að hafa ekki á endanum náð í þennan sigur gegn Deger­fors. Að hafa ekki náð að klára dæmið á okkar heima­velli, fyrir framan okkar stuðnings­menn. Það var fullur völlur, geggjuð stemning en við fáum annan séns til þess að klára þetta á sunnu­daginn,“ sagði Hákon í samtali við Vísi.

Hákon, sem er 22 ára, gekk í raðir Elfsborg frá Gróttu 2021. Hann hefur leikið fjóra A-landsleiki fyrir Íslands hönd.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×