Fótbolti

Þjálfarinn sem vildi ekki nota Svövu valinn þjálfari ársins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Juan Carlos Amoros hvetur sínar konur í NJ/NY Gotham FC áfram eftir einn af mörgum sigrum liðsins á tímabilinu.
Juan Carlos Amoros hvetur sínar konur í NJ/NY Gotham FC áfram eftir einn af mörgum sigrum liðsins á tímabilinu. Getty/Ira L. Black

Juan Amoros var valinn besti þjálfari tímabilsins í bandarísku NWSL kvennadeildinni í fótbolta en hann hefur náð sögulegum árangri með NJ/NY Gotham FC á sínu fyrsta tímabili.

Gotham endaði í tólfta og síðasta sæti á tímabilinu fyrir komu Amoros en hann er nú búinn að koma liðinu alla leið í úrslitaleikinn um meistaratitilinn.

Gotham var síðasta liðið inn í úrslitakeppnina en hefur slegið út bæði North Carolina Courage og Portland Thorns í leið í úrslitaleikinn á móti OL Reign.

Amoros vildi hins vegar ekki nota okkar konu á þessu tímabili. Hann setti Svövu Rós Guðmundsdóttur í frystikistuna snemma á leiktíðinni.

Íslenska landsliðskonan skrifaði undir tveggja ára samning við félagið í janúar 2023.

Hún fékk aftur á móti aðeins að koma inn á í fimm leikjum og spila bara 151 mínútu hjá Amoros. Svava spilaði einn hálfleik í fyrstu tveimur leikjunum en hún kom bara við sögu í þremur leikjum eftir það.

Svava endaði á því að fara á láni til portúgalska félagsins Benfica þar sem hún varð síðan svo óheppin að meiðst á mjöðm.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×