Fótbolti

Elfsborg mis­tókst að tryggja sér titilinn

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Sveinn Aron kom inn á sem varamaður en tókst ekki að setja sigurmarkið og tryggja Elfsborg titilinn
Sveinn Aron kom inn á sem varamaður en tókst ekki að setja sigurmarkið og tryggja Elfsborg titilinn X-síða Elfsborg

Elfsborg hefði getað tryggt sér titilinn í sænsku úrvalsdeildinni í dag en mistókst að sigra Degerfors, sem féll niður um deild. Leikurinn endaði með 2-2 jafntefli og Elfsborg leikur því næst úrslitaleik um titilinn gegn Malmö í síðustu umferð tímabilsins. 

Malmö tapaði leik sínum gegn Hacken fyrr í dag 4-2 og gáfu Elfsborg gullið tækifæri til að tryggja titilinn. Elfsborg mætti til leiks gegn Degerfors með tveggja stiga forskot og hefðu með sigri orðið sænskir meistarar. 

Degerfors þurfti nauðsynlega á sigri að halda en þetta var allra síðasti séns liðsins að halda sér uppi í efstu deild. Þeir komust yfir í upphafi leiks þegar Hákon Rafn Valdimarsson, markvörður Elfsborg, kom engum vörnum við skoti Seid Korac. Andri Fannar Baldursson byrjaði einnig leikinn fyrir Elfsborg en fékk gult spjald og var svo tekinn af velli strax í hálfleik. 

Elfsborg jafnaði í upphafi seinni hálfleiks og strax í kjölfarið kom Sveinn Aron Guðjohnsen inn á völlinn í leit að sigurmarkinu. Það vildi þó ekki verða, Degerfors komst aftur yfir en Elfsborg jöfnuðu leikinn á lokamínútunni og tryggðu sér stigið. 

Stigið breytir stöðunni þó ekki fyrir lokaumferðina þar sem Elfsborg mætir Malmö. Elfsborg dugir enn jafntefli en vinni Malmö leikinn verða þeir meistarar á markatölu. Leikurinn fer fram næstkomandi sunnudag, klukkan 14:00. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×