Fótbolti

Sæ­dís Rún æfir með Chelsea

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sædís Rún Heiðarsdóttir í leik með íslenska landsliðinu á móti Þýskalandi.
Sædís Rún Heiðarsdóttir í leik með íslenska landsliðinu á móti Þýskalandi. Vísir/Diego

Íslenska landsliðskonan Sædís Rún Heiðarsdóttir er flogin til Englands þar sem hún mun æfa með Englandsmeisturum Chelsea næstu daga.

Samkvæmt heimildum Fótbolta.net þá var bakverðinum efnilega boðið að æfa með besta liði ensku úrvalsdeildarinnar undanfarin fjögur ár.

Sædís, sem er nítján ára gömul, spilaði sína fyrsta byrjunarliðsleiki með A-landsliðinu í síðasta glugga en hún er líka fyrirliði íslenska nítján ára landsliðsins.

Chelsea hefur sex sinnum orðið Englandsmeistari þar af fjögur ár i röð. Emmu Hayes tók við liðinu árið 2012 og hefur byggt upp stórveldi.

Sædís yrði ekki fyrsta íslenska knattspyrnukonan til að spila með Chelsea en Edda Garðarsdóttir og Ólína Guðbjörg Viðarsdóttir spiluðu með liðinu árið 2013 eða stuttu eftir að Emma tók við.

Sædís Rún átti frábært tímabil með Stjörnunni í Bestu deildinni og var með þrjú mörk og níu stoðsendingar úr vinstri bakvarðarstöðunni. Hún vann sér sæti sæti í A-landsliðinu og spilaði sína fyrstu þrjá landsleiki í Þjóðadeildinni í haust.

Sædís er alin upp hjá Víkingi Ólafsvík á Snæfellsnesi en kom til Stjörnunnar árið 2020 eða þegar hún var aðeins sextán ára.

Sædís hefur síðan komið sér á kortið, bæði með frammistöðu sinni með Stjörnunni sem og með að vinna sér sæti í byrjunarliði landsliðsins. Það eru því miklar líkur á því að hún fái tækifæri í atvinnumennsku fyrr en síðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×