Erlent

Sex danskir lög­reglu­þjónar hand­teknir vegna fíkni­efna­máls

Árni Sæberg skrifar
Søren Thomassen, yfirlögregluþjónn lögreglunnar í Kaupmannahöfn, segir embættinu brugðið vegna málsins.
Søren Thomassen, yfirlögregluþjónn lögreglunnar í Kaupmannahöfn, segir embættinu brugðið vegna málsins. Ole Jensen/Getty

Sex lögregluþjónar hjá lögreglunni í Kaupmannahöfn voru handteknir í dag. Þeir eru grunaðir um þjófnaðar- og fíkniefnabrot í opinberu starfi í félagi hver við annan.

Þetta segir í frétt danska ríkisútvarpsins. Þar segir að lögregluþjónarnir sex hafi verið handteknir í dag en þeim sleppt og þeir sendir í leyfi.

Þar segir að samstarfsfélaga lögregluþjónanna hafi farið að gruna þá um græsku og því hafi málið verið tilkynnt innra eftirliti dönsku lögreglunnar. Eftir rannsókn þess séu lögregluþjónarnir grunaðir um þjófnað í tengslum við starf sitt og dreifingu fíkniefna. Ekki liggi fyrir að svo stöddu hvort þeir séu grunaðir um að hafa dreift fíkniefnum sem lögregla hafði lagt hald á.

„Við verðum að haga okkur vel. Við verðum að fara að lögum og njóta trausts borgaranna. Það dregur úr því þegar einhver okkar eru grunuð um að fylgja ekki lögum,“ hefur DR eftir Søren Thomassen, yfirlögregluþjóni lögreglunnar í Kaupmannahöfn.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×